146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er á bls. 2 fyrir þá sem hafa áhuga á greinargerð frumvarpsins. Þetta er fimm blaðsíðna greinargerð fyrir þá sem hafa áhuga á málinu, vel samantekin og reifuð, einmitt eins og hv. þingmaður nefnir, um skýrslur og ákvarðanir Alþingis þar sem Alþingi hefur verið að ræða nákvæmlega þessi mál og samþykkt. Alþingi samþykkir samhljóða í mörgum tilfellum að við þurfum að laga þessa hluti, að við þurfum að skerpa á upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.

Sérstaklega er tekið fram í greinargerðinni, sem Aðalheiður Ámundadóttir tók út, að lagðar séu til fjórar meginbreytingar. Í öðru lagi er fjallað um hvort brot á upplýsingaskyldu ráðherra eigi að vera refsiverð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Kemur annars vegar fram það sjónarmið að eðlilegt sé að brot ráðherra gegn upplýsingaskyldu til þingsins varði refsingu, en slíkt er sagt samræmast dönskum rétti.“

Við höfum fordæmi fyrir þessu. Að sjálfsögðu er það eðlilegt. Ráðherra hefur upplýsingaskyldu gagnvart þinginu sem semur lög fyrir alla landsmenn, að sjálfsögðu með alls konar viðurlögum og refsingum ef fólk fer ekki að þeim. Alþingi semur lög og fær ekki réttar upplýsingar og hefur eftirlit með því hvort og hvernig þeim lögum er framfylgt, kannski gróflega eða ekki nægilega vel. Alþingi fær ekki upplýsingar um það frá ráðherranum og það hefur ekki afleiðingar, engar tennur, það hefur engin viðurlög. Ráðherra getur bara leynt upplýsingum og það eru engin viðurlög. Það eru engin viðurlög við því fyrir ráðherra þó að hann gegni þessu gríðarlega veigamikla hlutverki.