146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir þetta ágæta frumvarp sem er um margt athyglivert og verður spennandi að skoða það nánar. Það eru auðvitað mörg atriði í þessu frumvarpi sem þarfnast umræðu, en ég held að megintilgangurinn hljóti að vera sá að við bætum vinnubrögð og að þingið geti sinnt eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldið geri með einhverjum hætti það sem fyrir það er lagt og upplýsi þingið um það sem upplýsa þarf.

Nú eru afskaplega fátæklegar reglur held ég, ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki alveg orðinn mjög verseraður í þessu, eða tiltölulega fátæklegar reglur um það hvað gerist þegar ráðherra er beðinn um skýrslu. Hver eru tímamörkin og hvernig er fylgst er með því hvar skýrslan er í farvatninu? Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki gagnlegt samhliða þessari umræðu að við ræddum líka hreinlega um ferla þannig að þingið, þingmenn, almenningur, geti fylgst með. Þegar þingið hefur beðið um skýrslu sé hægt að fylgjast með því hvar hún stendur. Það er búið að setja starfsmenn eða það sem þarf í málið, nú stendur yfir gagnaöflun, nú stendur þetta yfir, fyrirhuguð skil eru á einhverjum tilteknum tíma, þannig að við getum fylgst með. Ég held að það sé að mörgu leyti skilvirkara til eftirlits heldur en setja refsivöndinn á. Ég er þó ekkert að útiloka að það eigi að vera líka ábyrgð og þess vegna refsing, en ég held að hitt sé skilvirkara, að við höfum kerfi þar sem við getum betur fylgst með því hvað er verið að gera.