146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var engin sérstök gleðistemning yfir þinginu þegar við fengum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í hendurnar því að hún var auðvitað áfellisdómur yfir stjórnsýslunni á Íslandi og yfir svo mörgu öðru og ekki síst eftirliti, eftirlitsstofnunum, og hvernig þingið hafði eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það var sameiginleg niðurstaða sem 63 þingmenn greiddu atkvæði með að efla þyrfti þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og að koma þyrfti með bjargir inn fyrir þingmenn til að það eftirlit væri skýrt og virkt svo að við myndum ekki aftur lenda í sömu klemmu.

Þetta frumvarp er liður í því að geta sinnt þessu eftirliti almennilega. Önnur leið er líka að hafa málaskrá opna. Ég er einmitt að vinna slíkt frumvarp þannig að það sé svipað og í Noregi þar sem málaskrá ráðuneyta er opin, auðvitað með ströngum skilyrðum, það er ekki farið inn í persónuleg mál o.s.frv. Þá gætu þingmenn farið inn og skoðað. Er skýrslan komin? svo við tökum dæmi sem við þekkjum og rætt hefur verið hér í dag, og kalla þá eftir því að hún komi til umræðu.

Ég held að allar skýrslurnar og greinargerðirnar sem gerðar voru í kjölfar bankahrunsins nýtist okkur. Síðan þurfum við að halda áfram að þróa og setja undir götin sem eru í kerfinu.