146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar áhugavert mál svo ekki sé meira sagt. Í sjálfu sér er löngu tímabært að við reynum að bregðast við því sem hefur kannski ekki náðst í gegn enn þá, þ.e. þetta með sannleiksskyldu og annað sem þarf til þess að ráðherrar hegði sér sómasamlega, svo það sé orðað á mannamáli, og standi þinginu skil á því sem þeim ber að standa skil á. Það er auðvitað mjög mikilvægt.

Eins og hefur komið fram í umræðum dagsins hefur eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu verið mikið til umræðu og ekki að ósekju. Nú sem fyrr erum við að ræða það, því miður vegna frekar dapurlegra aðstæðna. Það að ráðherra, sama í hvaða ríkisstjórn hann er, leyfi sér að leyna skýrslum, gögnum, gagnvart þingheimi og gagnvart þjóðinni er auðvitað afar dapurlegt. Það er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að ráðherrann hafi talið að það kæmi sér illa fyrir sig og flokk sinn að birta þessar upplýsingar. Það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun. Það er heldur ekki hægt að draga aðra ályktun þegar maður les viðtöl við ráðherrann eftir að hann varð uppvís að þessu og inntur eftir viðbrögðum þar sem hann segir beinlínis að hann hafi ákveðið að halda þessu leyndu og reynir að bera fyrir sig eitthvað sem er frekar ótrúverðugt.

Í ofanálag neitar hann að koma fyrir þingnefnd til að ræða málið vegna þess að hann sé búinn að ræða það í fjölmiðlum. Það er líka mjög ámælisvert að telja að það séu nægileg svör og sæmileg vinnubrögð ráðherra gagnvart Alþingi að ræða málið við fjölmiðla.

Í öllu falli er líka hægt að segja að þegar ráðherra sagðist geta rætt málið í þinginu þá er ekki hægt að jafna því saman, annars vegar að geta rætt mál opinskátt á lokuðum nefndarfundi, geta spurt lengi, mikið, oft, eða hins vegar að fara hér í sérstaka umræðu þar sem þingmaður fær tvær mínútur til að spyrja ráðherra og ráðherra hefur fimm mínútur eða svo til þess að svara og svo er málið bara búið. Það er bara allt annað. Þrátt fyrir að við gætum hugsanlega dregið fram einhver atriði verður umræðan með allt öðrum hætti en þegar hægt er að eiga samtal í þingnefndum. Það er auðvitað ráðherranum til skammar að hann skuli ekki standa í fæturna og koma fyrir nefndina og verja gjörðir sínar, ef hann telur hægt að gera það, eða standa þinginu skil á þeim.

Við vitum ekki hvort báðar þessar skýrslur sem hafa verið til umræðu og eru kannski tilefni til þessarar umræðu í dag, frumvarpið nær auðvitað utan um það, hefðu haft einhver áhrif á niðurstöður kosninga. Við getum ekkert sagt um það. Kannski hefði þær gert það, kannski ekki. En það var a.m.k. tekið frá bæði þjóð og þingi að velja að hafa ákvörðunarvald í sínum höndum um það.

Það er ekki boðlegt að þingið hafi ekki verið styrkt með viðeigandi hætti til að takast m.a. á við ýmis mál gagnvart framkvæmdarvaldinu, fjárveitingavaldinu, opinberum fjármálum og hvað það nú heitir. Þingið er eftir sem áður ekki nógu vel búið. Ráðuneytin fengu t.d. styrkingu. Það er margt sem þarf að laga til þess að það sé í alvörunni eitthvert eftirlit, eitthvað, eins og kom fram hjá hv. flutningsmanni, sem skilar einhverri niðurstöðu, ekki bara að við sitjum alltaf í status quo.

Ég veit ekki hvort það er ein leið og hvort hún kosti miklar breytingar eða hvernig það yrði gert, ef ráðherrum yrði gert skylt að birta það og tilkynna hér í þingsal þegar nefndir, starfshópar eða hvað það nú er skila niðurstöðum sínum. Ég veit ekki hvernig því yrði best háttað, hvort um leið eigi að fylgja að ráðuneyti eigi eftir að fara yfir verkið, það eigi eftir að búa það til endanlegrar útgáfu eða hvað það nú er, en einhvers staðar verðum við að byrja og má vel vera að þetta sé leið til þess, að það verði í raun einhver skilaskylda. Við sjáum að í báðum þessum málum er það svo að skýrslurnar um aflandseignir og leiðréttinguna liggja í marga mánuði. Það er ekki eðlilegt. Það er margbúið að spyrja um þær. Ráðuneytin svara ekki heldur. Ráðherra ber ábyrgð á sínu ráðuneyti. Mér finnst mjög dapurlegt að staðan skuli vera með þessum hætti og minnir okkur á, sérstaklega núna, að við gengum til kosninga á óhefðbundnum tíma. Af hverju? Meðal annars af því að núverandi forsætisráðherra okkar átti eignir í Panama-skjólum. Bæði formaðurinn og varaformaðurinn. Það er ekki slys, ekki óvart, að skýrslan fer í skúffuna. Það er bara ekki þannig. Þetta er meðvituð ákvörðun.

Það er svo margt þegar maður fer að skoða mál sem tengist þessu, fyrir utan öll önnur mál og beiðnir og guð má vita hvað sem við höfum óskað eftir og ekki hafa komið svör við. Það eru ekki einu sinni komin öll svör fram um leiðréttinguna sem við óskuðum eftir. Því var dapurlegt að heyra í hæstv. umhverfisráðherra í dag tala um að við hefðum öll vitað þetta, þess vegna þyrftum við ekki skýrsluna. Hvað er það? Auðvitað skiptir þetta máli. Það er ekki bara innihaldið sem skiptir máli, það skiptir máli að þinginu sé sýnd sú virðing sem því ber af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er það sem skiptir máli. Og þegar fólk sem gegnir svo ábyrgðarmiklum stöðum sem ráðherrar brýtur ítrekað á þinginu, vil ég segja, með því að gera þetta, því mér líður a.m.k. þannig þótt það sé kannski ekki samkvæmt laganna bókstaf brot gagnvart þingmönnum, þá finnst mér að það hljóti að koma til þess núna að umboðsmaður Alþingis skoði þessi tvö mál saman. Ég held að það hljóti að leiða til sjálfstæðrar rannsóknar hans þegar þetta gerist í tvígang með stuttu millibili. Mér finnst þetta vera svo alvarlegt. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var auðvitað búin að óska eftir viðbrögðum umboðsmanns við fyrri skýrslunni og hann sá ekki ástæðu til að bregðast við því miðað við þau svör sem ráðherrann hafði gefið. En núna þegar þetta gerist aftur hlýtur að vera a.m.k. tilefni til að skoða þetta.

Ég velti því fyrir mér þegar við horfum á þetta í stóra samhenginu að það var mikið um það á síðasta þingi að svör bárust mjög seint við fyrirspurnum, skýrslubeiðnum og öðru slíku. Misstór og misumfangsmikil mál vissulega, en svör bárust mjög seint. Nú eru ráðuneytin búin að fá styrkingu, flestöll reyndar á fjármálasviðinu, en það breytir því ekki að það á ekki ítrekað að þurfa að bíða eftir svörum, jafnvel eins og nú að þau komi ekki á nýju þingi. Hvað eigum við þá að gera? Þurfum við þá að endurnýja fyrirspurnirnar, skýrslubeiðnirnar? Eða telst þetta afgreitt jafnvel þótt ekki sé svarað nema að hluta? Það er þannig varðandi svör um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

Kjarninn var einmitt að spyrjast fyrir um afdrif þeirrar skýrslu, þ.e. leiðréttingarskýrslunnar. Það ferli hófst í október 2015. Ráðuneytið fær fyrirspurn í desember sl. og þá var um hálft ár frá því að drög að skýrslunni voru tilbúin, einn og hálfur mánuður frá því að vinnu við hana lauk. Kjarninn spyr hvenær henni hefði verið skilað en í upprunalega svarinu segir, með leyfi forseta, að „endanleg gerð skýrslunnar lá fyrir þegar henni var skilað þann 18. janúar síðastliðinn“.

Varðandi endanlegan frágang og hvenær búið var að vinna upplýsingarnar sem skýrslan byggir á kom í ljós að það hafði verið í lok október. Það er beinlínis verið að gefa röng svör.

Hvað getum við gert? Við getum ekkert gert. Það er eiginlega það sem maður finnur, þennan vanmátt gagnvart því að vera þingmaður þegar manni finnst á þjóðinni og sjálfum sér brotið í starfi, þegar ráðherra getur ítrekað leyft sér að koma fram með þessum hætti. Við getum einhvern veginn ekkert brugðist við.

Þess vegna styð ég þá tillögu sem Píratar leggja hér fram. Eflaust á hún eftir að breytast eitthvað í meðförum þingsins eins og gengur og gerist. En grunnhugmyndin er sú að reyna að ná utan um akkúrat þetta, þ.e. að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma geti ekki skorast undan því að vera ábyrgt gjörða sinna. Það hefur auðvitað því miður ekki einkennt íslenskt samfélag, íslenskar ríkisstjórnir, að ráðherrar stígi til hliðar, nema það sé barið í bumbur hér úti, það er helst að það verði til þess. Það þarf alla jafna mikið að ganga á til þess að ráðherra segi af sér. Það hefur ekki gerst oft. Það er ekki endilega það sem maður vill, að staðan sé sú að fólk sé ítrekað að segja af sér ráðherradómi eða eitthvað slíkt en það ber að gera þegar menn fara jafn illa með vald sitt og hér hefur verið gert.

Ég vona að þetta frumvarp nái í gegn. Ég vona líka að þeir flokkar sem boða ný og breytt vinnubrögð og töluðu mikið um það fyrir kosningarnar núna og áður líka og vilja gagnsæja, öðruvísi stjórnsýslu, vilja draga fólk með sér, þótt það hafi nú ekki sýnt sig beinlínis í upphafi þingstarfanna, það er ekki hægt að segja það, standi við þau orð. Ég treysti því, og verð eiginlega að gera það og get ekkert annað, að fólk sjái hag sinn í því að þetta verði gert, að sannleiksskylda ráðherra verði með þeim hætti sem hér er lagt til og að ráðherrar setji sjálfa sig ekki í þá stöðu að hægt sé að draga upp þessa mynd af þeim varðandi það hvers lags framkoma þinginu er sýnd.

Ég vona svo sannarlega að málið fái skjóta meðhöndlun í þinginu og við sjáum það verða að lögun á vorþinginu.