146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:59]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Alger skortur á pólitískri ábyrgð er ein alvarlegasta meinsemd íslenskra stjórnmála og hefur lengi verið eins og komið hefur verið inn á hér í nokkrum ræðum. Það er mjög viðeigandi að við séum að ræða þetta mál þegar nýkomið er í ljós að hæstv. forsætisráðherra, þáverandi fjármálaráðherra, hafi í raun leynt tveimur mikilvægum skýrslum um risastór málefni fram yfir kosningar. En þetta er, eins og líka hefur verið komið inn á, samt sem áður eitthvað sem hefur alltaf verið að í íslensku samfélagi, pólitísk ábyrgð virðist ekki til í tungutaki íslenskra ráðamanna. Það sást kannski best þegar rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu og í ljós kom að ekki einn einasti ráðamaður gekkst við ábyrgð, einhvers konar ábyrgð á íslenska efnahagshruninu. Það þykir enn þá einhver mesta hneisa í sumum kreðsum íslenskra stjórnmálamanna að þáverandi Alþingi skyldi hafa vogað sér að beita lögum um ráðherraábyrgð gagnvart þeim ráðherra sem bar ábyrgð á þjóðarskútunni margumtöluðu eftir efnahagshrun. Það þykir hneisa að Alþingi skuli „actually“, afsakið að ég sletti, voga sér að kanna hvort ráðherrar geti einhvern tíma sætt ábyrgð.

Það, að virkja þetta ákvæði um upplýsinga- og sannleiksskyldu innan ráðherraábyrgðar, er mjög mikilvægur liður í því að fara að breyta þessari menningu varanlega, vonandi. Við höfum fleiri dæmi frá hruni en þessar tvær skýrslur hæstv. ráðherra. Með leyfi forseta sagði þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, þann 27. janúar 2014 í þessum stól:

„… minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu.“

Þá hafði hún í nóvember þar áður fengið umrætt minnisblað sent á sinn tölvupóst. Hvað er þetta kallað? Tja.

Þó að það sé kannski minna vinsælt í þeim hópi sem er staddur akkúrat núna í þessum þingsal tel ég vert að minnast á alvarlegar ákúrur sem varða það hvort upplýsingaskyldu ráðherra hafi verið nægilega sinnt í hinum margumrædda Icesave-máli þegar þáverandi hæstv. fjármálaráðherra sagði, með leyfi hans, forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga …“

Þetta er sagt á sama tíma og verið var að leggja lokahönd á samkomulag og það undirritað tveimur dögum síðar. Þannig að þetta gerist, virðist vera. Það eru dæmi um þetta hjá öllum flokkum, hjá ráðamönnum. Þetta er hluti af íslenskri stjórnmálamenningu sem við verðum að uppræta. Ég tel að þetta frumvarp sé mjög mikilvæg forsenda þess.