146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hér erum við komin í ansi djúpar grundvallarhugleiðingar um réttarríkið, lýðræðið og hlutverk þingsins gagnvart löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu, sem er alltaf mjög spennandi og áhugavert að ræða, sér í lagi fyrir okkur sem hér sitjum í þessum sal og tökum þátt í stjórnmálum.

Við deilum þeirri skoðun, ég og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, að þingið eigi ekki að breytast í saksóknaraembætti með einhverjum hætti. Kannski mun áhersla á skýrara eftirlit með gjörðum ráðherra komast inn í frumvarpið í meðförum þingsins og í nefndum. Kannski ætti forsætisnefnd, stjórnskipunarnefnd eða einhver önnur nefnd eða annað apparat að koma með hugmynd um að efla frekar eftirlit þingsins með embættisgjörðum ráðherra.