146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Í lögum um þingsköp sem eru leikreglur þingsins, þar sem m.a. eru útfærð alls konar atriði um hvernig þingið eigi að starfa, atriði sem eru meira eins og yfirlit í stjórnarskránni, kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.“

En eins og hv. þingmaður nefnir, hver eru viðurlögin? Það eru engin viðurlög. Ráðherra getur bara sleppt því að gera það. Hver ætti þá að fylgja því eftir? Jú, forseti þingsins ætti að ýta á það. En þar er brotalöm líka og forseti þingsins gerir það oft ekki. Þá bara situr málið og það er kallað hér á þingi, það er svona slangur yfir það, að málið sé kalt. Það situr þarna kalt. Þingmaðurinn þarf að hlaupa á eftir þessu. Það er enginn ábyrgur fyrir því að tryggja að ráðherra brjóti ekki á lögum um þingið þar sem þingið er að sinna eftirlitsskyldu sinni með því að kalla eftir skýrslu ráðherra, sem hann á að gera, sem hann skal skila. Hún skal prentuð út og útbýtt á þingfundi eftir tíu vikur. Þetta er nákvæmlega það sem þingmaðurinn nefnir.

Hvaðan kemur þessi heimild um að óska skýrslu frá ráðherra? Hún kemur fram í stjórnarskránni, ákvæðið í þingsköpum er útfærsla á ákvæði í stjórnarskránni. Í stjórnarskránni segir:

„Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.“

Svo er þetta útfært í þingsköpum, sagt að ráðherra skuli afhenda þinginu innan tíu vikna. En ráðherra getur bara sagt: Æ, ég gleymdi því. Eða bara: Nei. Það eru engin viðurlög.

Það sem frumvarpið gengur út á er að það verði viðurlög við því þegar ráðherra neitar að gangast við eftirlitshlutverki og -skyldum, stjórnarskrárbundnum eftirlitsskyldum þingsins, gagnvart framkvæmdarvaldinu.