146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ef frumvarp stjórnlagaráðs hefði verið samþykkt hefði ráðherra verið skylt að gera þetta. Það er líka hægt að setja það í lög að ráðherra sé það skylt og það varði ráðherraábyrgð ef hann gerir það ekki. Með orðum um að það varði ráðherraábyrgð er þetta orðið lagalegt atriði. Hann er farinn að brjóta ansi alvarlega af sér.

Kannski er þá spurningin: Er það nóg? Er nóg að segja að það varði ráðherraábyrgð? Það er góð spurning. Kannski skauta ráðherrar á Íslandi líka yfir það. Þeir skauta yfir svo margt sem er ekki gert í nágrannaríkjunum. Í nágrannaríkjunum er þannig að þegar ráðherra er farinn að brjóta af sér gagnvart ráðherraábyrgð, og þar er nefnt að það varði ráðherraábyrgð að ljúga að þinginu eða gefa villandi upplýsingar eða halda upplýsingum leyndum fyrir þinginu, það er t.d. í dönskum rétti, og þegar menn brjóta lög um ráðherraábyrgð í Danmörku hef ég heyrt að reglan sé, þegar þeir eru staðnir að því, að þá segi þeir af sér. Þá fer þingið ekki á eftir þeim. En það er alveg rétt. Þetta hefur líka svolítið að gera með menningu.

Þetta er góð spurning. Hvert er svarið ef menn ætla líka að brjóta gegn ráðherraábyrgð þrátt fyrir þetta? Það er góð spurning. Við getum aftur á móti strax farið að setja í lög þessi ákvæði, ráðherra skal mæta o.s.frv. Við getum unnið okkur í áttina að því. Við getum talað við nýjan þingforseta, Unni Brá Konráðsdóttur sem er mjög fær manneskja og málefnaleg í sinni vinnu um að hún verji þingið betur hvað þetta varðar og kalli eftir því að ráðherrar sem skulu skila skýrslum skili þeim. Þessi tillaga Pírata er um að víkka út upplýsingaskylduna, að það megi ekki leyna skýrslum, leyna upplýsingum, og að það varði refsingu. Ég held í öllu falli að ef okkur tekst að ná einhverri (Forseti hringir.) sátt innan þingsins um að við viljum laga þetta getum við tekið alvöruskref í áttina að því að laga þetta.