146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:36]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Heilbrigðiskerfið skiptir okkur öll miklu máli. Við þurfum öll að treysta á heilbrigðisþjónustu á lífsleiðinni, sumir því miður meira en aðrir. Við viljum að heilbrigðisþjónustan sé góð og örugg og allir geti haft aðgang að henni óháð efnahag og búsetu. Heilbrigðiskerfið er nefnilega ein af meginstoðum velferðarkerfisins og að því viljum við hlúa, ekki satt?

Umræða fyrir síðustu kosningar var á þessa leið, alveg sama hvaða flokkur átti í hlut. Við viljum betra heilbrigðiskerfi, það fer ekkert á milli mála. Spurningin er hvernig við ætlum að fara að því að bæta heilbrigðiskerfið, hvaða leiðir er best að fara. Það er eins gott að vanda sig þegar farið verður í þá vegferð því heilbrigðiskerfið okkar er afar kostnaðarsamt. Stór hluti af útgjöldum hins opinbera fer til heilbrigðismála. Við þurfum því að vinna heimavinnuna okkar vel, horfa á kerfið í heild sinni, ekki afmarkaða þætti þess og síðast en ekki síst horfa á landið allt, allar heilbrigðisstofnanir og aðrar fjárfestingar sem þar eru undir. Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig við getum nýtt það sem við höfum enn betur, gert kerfið skilvirkara og betra og nýtt fjármuni betur. Þetta er viðamikið verkefni og einstaklega flókið en um leið verðug áskorun fyrir okkur öll.

McKinsey-skýrslan frá 2016, sem flutningsmaður málsins, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, vísaði í í ræðu sinni áðan, er ágætur vegvísir í þessari reisu okkar. Framlögð þingsályktunartillaga er svo einn áfanginn í átt til betra heilbrigðiskerfis sem ég vona að við getum sameinast um og afgreitt með jákvæðum hætti héðan frá hinu háa Alþingi.

Í þingsályktunartillögunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Við gerð heilbrigðisáætlunarinnar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða og aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítala.“

Í fjárlögum sem Alþingi afgreiddi rétt fyrir jól var bætt verulega við framlög til heilbrigðismála. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks hafði það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að endurreisa heilbrigðiskerfið sem var orðið ansi veikburða eftir langan og kvalafullan niðurskurð síðustu ára. Ég er ekki að leita að sökudólgum með því að segja þetta. Þetta er bara staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við. Við gengum líka í gegnum eitt stykki efnahagshrun sem kom auðvitað hart niður á heilbrigðisstofnunum eins og öðrum.

Alþingi samþykkti nú síðast í fjáraukalögum að bæta við fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Báðar þessar stofnanir glíma við miklar áskoranir og hafa þurft að skera verulega niður síðustu ár. Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók t.d. við miklum skuldahala frá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þegar þær voru sameinaðar og þann skuldahala hefur verið erfitt að rétta af en var sem betur fer gert í lokafjárlögum fyrir árið 2015. Fjölgun ferðamanna hefur verið gríðarleg á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með tilheyrandi aukningu á þjónustuþörf. Sjúkraflutningar eru svo alveg kapítuli út af fyrir sig. Á Suðurlandinu eru líka fjölmennar sumarhúsabyggðir sem nauðsynlegt er að taka tillit til þegar þjónustuþörf er metin hverju sinni. Það er alveg sama hvort verið sé að reikna út þörf fyrir löggæslu, samgöngur eða aðra almannaþjónustu. Íbúafjöldi segir ekki allt um þjónustuþörf. Það er liðin tíð. Við verðum að taka aðra þætti inn í jöfnurnar. Það er eiginlega merkilegt að svo sé enn ekki gert í öllum tilfellum.

Vegna þessa mikla álags hjá HSU og sérstakra aðstæðna fékk stofnunin viðbótarfjármagn í fjáraukalögum eins og áður segir þannig að nú er stofnunin mun betur sett en hún var fyrir jól, sem er vel.

Víkur nú sögunni að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar eru allt aðrar aðstæður og aðrar þarfir til staðar. Sú stofnun hefur til langs tíma mátt sæta verulegum niðurskurði langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Aftur, ég er ekki að leita að sökudólgum. Við þurfum einfaldlega að vera samstiga um að bæta hlutina. Framlög til heilbrigðismála á hvern íbúa hafa verið lægri á Suðurnesjum en til annarra staða á landinu, það er bara þannig. Nú er staðan sú að íbúafjölgun er mest á Suðurnesjum, en á síðasta ári var fjölgunin um 8% sem er mjög mikið. Ekki sér fyrir endann á þeirri fjölgun enda er atvinnuuppbygging á svæðinu gríðarleg og á sama tíma er húsnæði á höfuðborgarsvæðinu orðið allt of dýrt svo vinnandi fólk sér sér jafnvel hag í því að flytja frekar suður með sjó, fá meira fyrir peninginn þegar það kaupir húsnæði.

Við þessari íbúafjölgun var brugðist að nokkru leyti í fjáraukalögum og sömuleiðis auknum straumi ferðamanna um svæðið. Samkvæmt nýjustu tölum fóru tæplega 7 milljónir manna um flugstöðina á síðasta ári, ég held að talan sé 6,7 milljónir. Gert er ráð fyrir enn frekari fjölgun.

Allri þessari atvinnuuppbyggingu, m.a. samhliða stækkun flugstöðvar, fylgir fólk, bæði skráðir íbúar og fólk sem er í einstökum verkefnum um skamman tíma. Við verðum að vera vakandi yfir þessari þróun. Íbúar Suðurnesja eru vel settir hvað varðar samgöngur og eru í akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og hafa þess vegna stundum orðið svolítið út undan í umræðunni um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. En það er kominn tími til að ræða stöðu Suðurnesja og framtíðarsýn hvað varðar uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á því svæði m.a. í ljósi fjölgunar íbúa og umferðar um flugstöðina.

Hvað ætlum við t.d. að gera ef flugslys verður eða eitthvað annað sem reynir á þjónustugetu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja? Er það ábyrgt af okkur að ekki séu t.d. opnar skurðstofur á sjúkrahúsinu sem á að þjónusta flugstöðina þar sem 7 milljónir manna fara nú um? Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Flugstöðvarumferðin og áskoranir sem henni fylgja setur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að sumu leyti á annan stað en aðrar heilbrigðisstofnanir. En þó er margt sem tengir stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins saman hvað varðar þau tækifæri sem í þeim felast. Við erum búin að byggja þessar stofnanir upp.

Einn helsti vandi Landspítalans er fráflæðisvandinn margumræddi. Við getum dregið úr þeim vanda með því að fjölga hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Nú er unnið að samþykktri áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þannig að við erum komin af stað og þurfum að halda vel á spöðunum í þeim efnum.

Annað sem við getum gert er eins og ég nefndi áðan að nýta núverandi stofnanir betur, þá sérstaklega svokallaðar Kragastofnanir eins og á Suðurnesjum, Akranesi og Selfossi. Með því að nýta þær betur væri hægt að draga úr fráflæðisvandanum og stytta biðlista í einfaldar aðgerðir. Það er ekkert vit í öðru en að nýta skurðstofurnar okkar. Á Suðurnesjum eru t.d. tvær skurðstofur fullbúnar sem eru samkvæmt mínum upplýsingum ekkert nýttar í dag. Á Akranesi og á Selfossi eru skurðstofur í notkun og allt til alls. Ég kaupi ekki þau rök að vandamálið sé ekki skurðstofurnar heldur sé svo erfitt að manna slíkar stöður. Það er ekkert erfitt. Það er alveg hægt að nýta mannskapinn betur en við höfum gert. Það er auðveldara að flytja heilbrigðisstarfsfólk á milli stofnana og ódýrara en að flytja sjúklinga milli stofnana eða láta þá bíða lengi eftir aðgerðum. Leguplássin er líka dýrust á Landspítalanum, hátæknisjúkrahúsinu okkar. Auðvitað eigum við ekki að nýta þau pláss nema brýn nauðsyn krefji. Við ættum frekar að láta sjúklinga jafna sig á ódýrari heilbrigðisstofnunum eftir aðgerðir ef það er hægt.

Við í þessum sal erum fæst sérfræðingar á þessu sviði. Við höfum okkar skoðanir en þurfum auðvitað að leita til fólks sem starfar á planinu til þess að átta okkur á því hvernig best er að haga hlutunum, hlusta á starfsmenn heilbrigðisstofnana. Auðvitað hafa þeir þekkingu og hugmyndir um hvernig bæta megi heilbrigðisþjónustuna. Stundum er gott að tala minna og hlusta meira.

Ég ætla að vera alveg hreinskilin þar sem við erum að ræða framtíðarfyrirkomulag og stefnumótun heilbrigðismála og segja að mér finnst sem stjórnendur Landspítalans hafi fengið allt of mikla athygli bæði hjá fjölmiðlum og stjórnmálamönnum hin síðari ár. Ég vil heyra meira frá stjórnendum annarra heilbrigðisstofnana. Ég vil heyra meira frá stjórnendum og starfsfólki heilsugæslustöðva. Ég vil að við stjórnmálamenn gætum þess vandlega að týna okkur ekki í öfgafullri umræðu. Við þurfum að hafa heildarsýn. Við þurfum að hafa kerfi sem virkar fyrir alla alls staðar.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að hafa drifið þetta mál á stað. Þetta er gott mál. Ég vona að það fái jákvæða umfjöllun í þinginu.