146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:48]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því að ganga hér í pontu óboðin. Ég er greinilega á kafi í umræðunni og hugsa mikið og gleymi mér aðeins.

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ágætisandsvar og ánægð að heyra að hún nefnir lýðheilsuna. Ég var einmitt að velta því fyrir mér þegar ég skrifaði ræðu mína fyrr í dag hvort ég ætti að koma inn á þann þátt vegna þess að lýðheilsan hefur að mínu mati fengið of lítið pláss í umræðunni bæði á þingi og annars staðar vegna þess að hún er að sjálfsögðu afar mikilvæg. Við erum að tala um heildstæða heilbrigðisáætlun, við erum að tala um stefnumótun. Það hefur talsverð vinna farið fram í forsætisráðuneytinu í starfshópnum um lýðheilsu síðustu ár. En við höfum kannski ekki heyrt nógu mikið af því, ég sakna þess. Ég mundi gjarnan vilja fá aukna umræðu um lýðheilsu.

Annað sem hv. þingmaður nefndi voru endurhæfingarstöðvar eins og Reykjalundur og það er náttúrlega heilsustofnun í Hveragerði og fleiri slíkar sem gegna mjög mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. Það sem ég meinti áðan; ekki má skilja orð mín sem svo að Landspítalinn sé minna mikilvægur en annað eða slíkt, Landspítalinn er hátæknisjúkrahús okkar og við ætlum að hafa það þannig og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. En mér finnst samt, eins og ég sagði áðan, að umræðan hafi snúist að of miklu leyti um Landspítalann á kostnað annarra þátta heilbrigðiskerfisins eins og endurhæfingarinnar, eins og lýðheilsu, eins og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Það er engu sérstöku um að kenna. Hlutirnir eru eins og þeir eru og við fljótum með. En það er okkar að breyta því.