146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

4. mál
[19:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ágæta yfirferð á framlögðu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Mér þykir þetta gott mál. Þetta er skynsamlegt mál og ég mun styðja það. Sú sem hér stendur og minn flokkur höfum þá stefnu, eins og það er orðað í ályktun flokksins, að gjalda varhuga við einkarekstri. Þess vegna finnst mér það í mjög góðu samræmi við þá stefnu þar sem einkarekstur er ekki útilokaður en það þurfi meira til en ákvörðun ráðherra til að taka slíka ákvörðun. Heilbrigðiskerfið er kerfi okkar allra eins og ég sagði í ræðu um málið sem var á undan á dagskrá þá viljum við öll, já, ég þori nánast að fullyrða að sama í hvaða flokki við erum, að allir Íslendingar hafi jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi. Við viljum takmarka greiðsluþátttöku fólks því að með aukinni greiðsluþátttöku eykst mismunun gagnvart þeim sem hafa minna á milli handanna og leita sér þá síður læknisþjónustu, heilbrigðisþjónustu. Það viljum við ekki.

Ég er ein af þeim 80% sem vilja að heilbrigðiskerfið okkar sé hjá hinu opinbera. Ég hef trú á því að það tryggi þann jöfnuð sem skiptir samfélagið mjög miklu máli. Ójöfnuður er það sem grefur undan okkur, grefur undan sáttinni, eykur óánægju og leiðir til ófriðar. Um heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðra slíka þjónustu á að gilda að allir hafi sama aðgang að þeirri þjónustu að mínu mati.

Ég kannast þó ekki við það sem kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að stefna síðustu ríkisstjórnar hafi verið sú að auka við einkavæðingu. Ég er ekki með tölur með mér en ég held að þetta komi líka fram í McKinsey-skýrslunni frá 2016, að sú stefna og sú framkvæmd hafi verið meira áberandi áður. En eins og ég segi og hef sagt, við þurfum svo sem ekki að vera að leita endalaust að sökudólgum, hver gerði hvað og hvernig og allt þetta. Við þurfum að horfa til framtíðar.

Forstjóri Landspítalans og fleiri sérfræðingar sem þekkja heilbrigðiskerfið mjög vel hafa talað um á undanförnum dögum í umræðunni um Klíníkina sem er einkarekin heilbrigðisþjónusta að slík þjónusta muni veikja heilbrigðiskerfið, aukinn einkarekstur muni veikja heilbrigðiskerfið okkar. Það er full ástæða til að hlusta á slík varnaðarorð. Þetta frumvarp gengur akkúrat út á það að ef til kemur, ef uppi eru hugmyndir um að fara með þessa þjónustu í einkarekstur, sé varnaglinn sá að ákvörðunin þurfi að fara í gegnum Alþingi, fara í gegnum nánari skoðun þar og svo verði þar tekin ákvörðun. Hún liggi ekki bara hjá einum manni og einu ráðuneyti.

Auð auki tek ég undir þau sjónarmið sem málsflytjandi, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, fór yfir varðandi arðgreiðslur. Þar er ég líka algerlega sammála. Það er óeðlilegt í besta falli að ríkisfé fari í arðgreiðslur. Af sjálfsögðu á það að renna aftur inn í reksturinn, honum til hagsbóta og til uppbyggingar.

Þetta er gott mál. Ég styð það og ég vona að það fái góða umfjöllun og afgreiðslu í Alþingi.