146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í gærmorgun heimsótti allsherjar- og menntamálanefnd Menntamálastofnun til að kynna sér þá starfsemi sem þar fer fram. Þetta er ung stofnun sem skiptir miklu máli í menntun allra þeirra sem stunda nám í skólum landsins, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi, leikskólastigi og háskólastigi. En það var eitt sem vakti sérstaka athygli mína þar. Fram kom í máli þeirra sem voru að kynna okkur stofnunina að læsi íslenskra barna er verulega ábótavant. Þar kom fram að eftir 4. bekk á sér stað mjög lítil framför í lestri, sérstaklega í hraðlestri. Nú vitum við að þegar við erum komin lengra í námi þurfum við virkilega á því að halda að geta lesið hratt og ég tel að þetta sé áskorun, ekki bara til skólanna heldur líka til foreldra ungra barna um að hvetja til bóklesturs af því að með lestur fer eins og allt annað, við verðum því betri sem við æfum okkur meira og gerum tiltekinn hlut oftar. Þar fyrir utan þau ár sem við erum börn og unglingar að geta átt þær stundir sem lesturinn gefur okkur, það fylgir okkur til fullorðinsára. Ég á móður sem er orðin 82 ára gömul og hún les tvo, þrjá og fjóra tíma á dag. Þetta hefur verið hennar helsta dægradvöl í gegnum tíðina. Ég ítreka að ég hvet foreldra til að gefa sér tíma til að lesa með börnunum og hvetja þau til lestrar.

Svo vil ég að endingu segja líka vegna orða hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur að ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir (Forseti hringir.) að skýrslan sem hún kallaði eftir er í prófarkalestri. Það er það sem tefur.


Efnisorð er vísa í ræðuna