146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég óskaði eftir sérstakri umræðu um kjör öryrkja til að fá fram áherslur og stefnu nýrrar ríkisstjórnar um hvernig og hvort bæta eigi kjör þeirra á kjörtímabilinu og hvernig og hvort eigi að ráðast í kerfisbreytingar á lífeyri öryrkja.

Staðreyndin er sú að kjör öryrkja hafa ekki batnað í sama hlutfalli og annarra hér á landi. Í hópi öryrkja eru einstaklingar sem eru líklegastir til að búa við fátækt og búa ekki við mannsæmandi aðstæður. Í lok síðasta þings gerði þáverandi meiri hluti breytingar á lífeyrisgreiðslum þannig að greiðslur til öryrkja í sambúð hækkuðu í 227.833 kr. á mánuði. Fyrir þá sem búa einir var framfærsluuppbót hækkuð til að brúa bilið upp í 280 þús. kr. sem verða lágmarkslaun á árinu 2017.

Framfærsluuppbótin skerðist um krónu á móti krónu. Síðasti stjórnarmeirihluti ákvað að auka vægi þessara 100% skerðinga. Þar til þá hafði verið samstaða um að draga úr þeim í almannatryggingakerfinu, enda eru þær atvinnuletjandi en umræðan hafði verið um að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Með þessari ákvörðun dregur verulega í sundur með öryrkjum í sambúð og hinum sem búa einir og viðbótin skerðist öll, króna á móti krónu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar segir, með leyfi forseta:

„Tekið verði upp starfsgetumat og örorkulífeyriskerfið þannig gert sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði.“

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að atvinnuletjandi skerðingum verði breytt. Þegar rætt er um að breyta áherslum frá örorkumati yfir í starfsgetumat eru flestir sammála um að það sé jákvæðari nálgun að meta hvað viðkomandi getur fremur en að leggja áherslu á það sem hann getur ekki. En ég á erfitt með að skilja þessa miklu áherslu á starfsgetumat. Er ekki örorkumatið að viðbættu starfsgetumatinu samtals 100%? Ef við vitum örorkumatið vitum við um leið hver starfsgetan er. Eða er skilgreining á starfsgetumati einhver önnur?

Ég vona að áður en starfsgetumatið verður tekið upp eins og boðað hefur verið muni hæstv. ráðherrann kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því og hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja t.d. í Bretlandi. Ég vil benda sérstaklega á tvær rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats í Bretlandi sem báðar voru birtar árið 2015. Önnur er gerð af fræðimönnum í háskólanum í Liverpool og Oxford og ber yfirskriftina, með leyfi forseta, First, do no harm, sem þýða má sem: Ekki gera illt verra. Hin er frá sama ári, gerð af fræðimönnum frá háskólanum í Liverpool og heilbrigðisstofnunum í Bretlandi og ber yfirskriftina, með leyfi forseta, Fit For Work Or Fit For Unemployment? sem má þýða sem: Hæfur til að starfa eða hæfur til að vera atvinnulaus? Báðar gefa rannsóknirnar afgerandi niðurstöður um slæm áhrif starfsgetumats á þá sem eru með skerta starfsgetu vegna geðrænna kvilla og langvarandi veikinda.

Við breytinguna yfir í starfsgetumat ættu stjórnvöld að læra af slæmri reynslu Breta og forðast að fara þeirra leið en líta frekar til Noregs þar sem framkvæmd starfsgetumatsins hefur gengið eitthvað betur, þótt hún hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel.

Það hefur ekkert upp á sig að breyta matinu á stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild hefur engum skyldum að gegna þegar kemur að ráðningu fólks í hlutastörf eða sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en í annan tíma aðeins með 20% starfsgetu, svo dæmi sé tekið.

Einnig þarf að taka tillit til aðstæðna, svo sem úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig á að tryggja fólki örugga og mannsæmandi framfærslu? Hvað gerist ef fólk fær ekki vinnu eftir starfsgetumatið? Verður raunin sú að eftir starfsgetumatið fækki fólki á lífeyri en fjölgi í staðinn á atvinnuleysisbótum, sem eru tímabundið úrræði og lakari mánaðargreiðslur? Þaðan gæti leiðin legið á framfærslu sveitarfélaga þar sem bjóðast enn lakari kjör.

Mér finnst að það ætti að vera í forgangi hjá stjórnvöldum, ásamt því að bæta kjör öryrkja verulega, að gera allt sem mögulegt er með stuðning í skólastarfi, með aðstoð við fólk sem getur styrkt stöðu sína, styttingu biðlista í heilbrigðisþjónustu og betri geðheilbrigðisþjónustu ásamt alvöruaðlögun að vinnumarkaði. Sumir munu aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði. Það þarf líka að taka tillit til aðstæðna þeirra.