146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:42]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka þetta mál upp. Í stuttu máli er það þannig að þegar almannatryggingar voru endurskoðaðar á síðasta ári tókst að ljúka endurskoðun á bótakerfi í lífeyrisgreiðslum til aldraðra, en þeirri endurskoðun tókst ekki að ljúka fyrir öryrkja. Þess vegna var gripið til þess bráðabirgðaúrræðis að hækka framfærsluuppbótina sérstaklega til þess að mæta sömu viðmiðum um lægstu tekjur fyrir þá sem búa einir og eru í samningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. að þær nái 280 þús. kr. frá upphafi þessa árs og 300 þús. kr. frá upphafi næsta árs.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta er ekki besta lausnin, þarna er um bótaflokk að ræða sem er skertur krónu á móti krónu. En fyrir dyrum stendur endurskoðun á bótafyrirkomulagi örorkubóta og skerðingum með sama hætti og gert var gagnvart öldruðum og vonandi þá með einföldun þar sem um samræmda skerðingu tekna yrði að ræða, óháð því hverjar þær eru, sem er 45% skerðing hjá öldruðum í dag en er með mjög ólíkum hætti þegar kemur að öryrkjum.

Þessu munum við beita okkur fyrir að verði lokið sem fyrst og raunar er á þingmálaskrá ráðuneytisins frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi.

Umræðan snýr hins vegar einnig að upptöku eða innleiðingu starfsgetumats. Þar vil ég segja að þetta er mjög ofarlega á okkar forgangslista. Í mínum huga er þetta alveg gríðarlega mikilvægt verkefni. Þetta er ekki ein alhliða lausn þegar kemur að örorku, við vitum það mætavel, og það er fjöldi fólks sem þetta á ekki við um. Raunar hefur það verið mjög lengi í umræðum um örorku að snúa frá því að meta fólk út frá því sem það getur ekki, eins og hv. þingmaður nefndi, yfir í að meta það út frá því hvað það getur. Það eru aðrir og fleiri þættir sem skipta þar máli.

Við glímum við örorkuvanda. Við sjáum mjög aukna örorku á undanförnum þremur áratugum eða svo þar sem hlutfall fólks á örorkubótum hefur farið úr u.þ.b. 3% í þeim hópi sem er á aldrinum 16–60 ára, í um 9% í dag. Það er um þreföldun á hlutfalli á um þremur áratugum. Það er samfélaginu öllu og viðkomandi einstaklingum alveg einstaklega dýrkeypt. Við þekkjum afleiðingar örorkunnar í minni virkni, félagslegri einangrun, auknum heilbrigðisvanda o.s.frv. Þetta snýr ekki bara að kostnaði almannatrygginga, þetta snýr fyrst og fremst að lífsgæðum fólks og þeim tækifærum sem því standa til boða. Þess vegna leggjum við stóraukna áherslu á starfsgetumat og í framhaldi af því starfsendurhæfingu. Þar þarf að horfa til allra þátta. Horfa þarf til þess hvernig tekst til í endurhæfingunni, sem við höfum þegar ákveðna reynslu af í gegnum Virk, sem hefur náð ágætisárangri, en við vitum líka að það eru ýmis tilvik, þyngri tilvik, þar sem við þurfum að veita meiri stuðning í aðdraganda starfsendurhæfingar og þurfum ná betur utan um það. Það er líka alveg ljóst að við þurfum að veita meiri stuðning þegar kemur að því að fólk ljúki starfsendurhæfingu og fer að leita að starfi eða fer jafnvel í nám. Það eru þættir sem við erum að skoða í tengslum við endurskoðun laganna, hvernig við getum náð utan um málið betur í heild sinni.

Við þurfum líka að fjárfesta í þessum málaflokki miklu meira en við höfum gert. Við þekkjum auðvitað vandamálin, aðdraganda örorku og það er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að stórauka geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk. Við þurfum að horfa til sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustunnar bæði í grunnskóla og menntaskóla. Við þurfum að horfa til þess hvað veldur því að börnum líður illa í skóla og flosna á endanum upp úr skóla, sem stóreykur áhættuna á örorku þegar fram í sækir. Við sjáum vandann sem fylgir greiningu á grunnskólastigi sem eykur á endanum verulega hættuna á örorku á seinni stigum. Við þurfum að ná utan um það allt saman og verður það liður í áætlunum okkar um innleiðingu starfsgetumats og starfsendurhæfingar.

Að lokum. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að stöðu öryrkja almennt. Við þurfum að vanda okkur í þeirri umræðu. Við þurfum að sýna metnað og í mínum huga þurfum við að fjárfesta í því að hjálpa fólki til annarrar úrlausnar en örorku. Við þurfum auðvitað að sjá fólki farborða með framfærslu, með bótafjárhæðunum, og það hefur þegar verið gert (Forseti hringir.) með 280 þús. kr. viðmiðinu og 300 þús. kr. viðmiðinu. En við þurfum ekki síður að huga að því hvernig við komum í veg hina miklu fjölgun fólks á örorku og hvernig við getum aukið virkni fólks og verið með réttu hvatana til atvinnuþátttöku fyrir þá aðila sem það á við.