146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja umræðu um kjör öryrkja. Það er gríðarlega mikilvægt mál því að við erum jú að tala um hóp af fólki sem stendur oft mjög höllum fæti í samfélagi okkar. Það er í mjög viðkvæmri stöðu og er hættara við því að búa við fátækt en flestum öðrum hópum. Við hljótum alltaf að þurfa að taka mið af því þegar við ræðum þessi mál.

Sem samfélag hljótum við að vilja að sem flestir taki þátt og þátttaka á vinnumarkaði er í raun lykill fullorðins fólks að samfélagsþátttöku. Auðvitað er þar gott að líta til getu fólks frekar en vangetu, en hér verðum við að passa okkur á því að láta ekki einhver orð afvegaleiða okkur sem kunna að hljóma vel. Ef við köfum ekkert ofan í það sem stendur á bak við þau orð er hætta á því að það gerist. Þess vegna er mikilvægt þegar talað er um breytingar og jafnvel einföldun á almenna tryggingakerfinu, og þá er oft talað um það að taka upp starfsgetumat, að það verði aldrei til þess að grunnnetið í velferðarkerfinu verði einfaldlega svo gisið að fólk falli á milli möskvanna. Það er þess vegna mikilvægt þegar við ræðum breytingar á kerfinu að það verði alltaf þrepaskipt þannig að fólk falli hreinlega ekki niður á milli. Það var röng áhersla sem lögð var í tíð síðustu ríkisstjórnar að auka vægi krónu á móti krónu skerðinga. Ég hef áhyggjur af því að það muni gera okkur virkilega erfitt fyrir að breyta kerfinu því að þar fórum við í ranga átt.

Að lokum vil ég segja að það er mikilvægt að við hlustum eftir sjónarmiðum (Forseti hringir.) Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar þegar kemur að frítekjumörkum vegna atvinnutekna og að við smíði á nýju kerfi lítum við til þess að kerfið (Forseti hringir.) virki atvinnuhvetjandi fyrir alla, líka þá sem hafa mjög litla starfsgetu.