146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, bæði framsögumanni og svo ráðherra fyrir svörin. Ég er með spurningar sem ég vonast til þess að ráðherra geti svarað þegar hann kemur í sína seinni ræðu.

Það liggur fyrir í þingmálaskránni og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ætlunin sé að koma með frumvarp um innleiðingu á starfsgetumati og væntanlega líka breytingar á lífeyri öryrkja. Það sem ég myndi vilja spyrja ráðherrann um er hvað hann áætlar, og hans ráðuneyti, að sú breyting muni kosta. Þar sem nú liggur ný fjármálastefna fyrir þinginu og er núna til vinnslu í fjárlaganefnd þar sem segir að af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þess afgangs sem þar liggur fyrir spyr ég hvernig megi samræma þetta tvennt, annars vegar fjármálastefnuna og hins vegar fyrirætlanir ráðherra sem leggja til breytingar. Er ráðherrann með loforð, sem ég vona svo sannarlega, um að tryggja að fjármagn fáist í þessar breytingar? Hér erum við ekki að tala um einhverja tugi eða hundruð milljóna heldur erum við að tala um milljarða. Það er nauðsynlegt að fá að heyra frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvort það fjármagn verði ekki örugglega tryggt.

Annar þáttur sem ég held að sé mjög mikilvægur og ráðherrann vonandi getur líka komið inn á er að það er mjög mikið óöryggi og hræðsla hjá öryrkjum gagnvart þeim breytingum sem hér er verið að tala um. Ég fann svo sannarlega fyrir því þegar ég vann að þessum breytingum.

Hvernig hyggst ráðherrann nálgast innleiðingu á þessum breytingum? Hver verður staða þeirra sem eru þá fyrir í kerfinu og síðan þeirra sem koma nýir inn í kerfið? Fyrst og fremst spyr ég hvort það sé ekki tryggt (Forseti hringir.) að þetta verði fjármagnað.