146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

starfshópur um keðjuábyrgð.

69. mál
[16:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og segi það hér að ég tek mjög undir markmiðið að baki þessu. Ég hef reyndar heyrt, og ég er nú ekki lögfræðimenntuð sjálf, ýmsa vankanta á því að setja keðjuábyrgð inn í lög. Ég sé að hér er vísað í önnur lönd sem hafa gert það. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga komi fram og umræða um þessi mál fari fram og þroskist. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er eins og þetta verkefni sé að verða meira og meira aðkallandi og hefur orðið það á síðustu árum þar sem við höfum farið að sjá í auknum mæli dæmi um eitthvað óheilbrigt á vinnumarkaði sem við þekktum ekki áður eða var ekki í dagsljósinu. Ég þakka fyrir það og held að þetta verði áhugaverð umræða að taka og gott fyrir okkur öll að þroska hana og átta okkur á öllum vinklum hennar.