146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um samræmda vísitölu neysluverðs. Hér er um að ræða annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Flutningsmenn þessarar tillögu eru allir hv. þingmenn Framsóknarflokksins, en það er sá hv. þingmaður sem hér stendur, Elsa Lára Arnardóttir, sem er framsögumaður málsins, og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Umrædd þingsályktunartillaga fjallar um að fela hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Samkvæmt tillögunni skal ráðherra flytja Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.

Í greinargerð með tillögunni, en ég ætla að fá að lesa upp efni hennar, segir að tillaga um sama efni hafi verið lögð fram á 145. löggjafarþingi en ekki verið afgreidd, en um var að ræða 643. mál.

Hér á landi hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill. Hlutverk beggja vísitalnanna er að mæla verðbreytingar á vörum og þjónustu sem almenningur kaupir til einkanota en mismunandi vöruflokkar liggja til grundvallar hvorrar vísitölunnar fyrir sig. Þar munar líklega mestu um kostnað við eigið húsnæði sem er vöruflokkur innan vísitölu neysluverðs en ekki samræmdrar vísitölu neysluverðs. Hækkun húsnæðisverðs reiknast þannig beint inn í vísitölu neysluverðs en hefur aðeins afleidd áhrif á þróun samræmrdar vísitölu neysluverðs í gegnum húsaleigu. Það að halda húsnæðisverði og kostnaði við eigið húsnæði utan vöruflokka sem reiknast til neysluverðsvísitölu hefur verið rökstutt með því að þar sé fremur um að ræða fjárfestingu en eiginlega neyslu. Annar veigamikill munur á vísitölunum er sá að útgjöld ferðamanna eru undanskilin við útreikning í vísitölu neysluverðs en ekki samræmdri vísitölu neysluverðs.

Verðbólgumæling þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við samræmdu vísitöluna. Má leiða að því líkur að húsnæðisverð og kostnaður við eigið húsnæði skipti þar mestu máli. Þannig kom t.d. fram í síðasta tölublaði Peningamála Seðlabanka Íslands, 4. tbl. 2016, að ársverðbólga í október sl. hafi mælst 1,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðisliðar hafi lækkað um 0,5% frá fyrra ári. Verðbólga miðað við samræmda vísitölu neysluverðs hafi mælst 1,1% í september sl. Slíkur munur getur haft veruleg áhrif á þróun verðtryggðra lána. Sem dæmi má nefna að heildargreiðsla af 20 millj. kr. verðtryggðu jafngreiðsluláni til 40 ára með 3,85% vöxtum væri ríflega 57 millj. kr. miðað við 1,8% verðbólgu en ríflega 49 millj. kr. ef við værum með 1,1% verðbólgu. Af þessu er ljóst að líkur eru til að verðtrygging hefði talsvert minni áhrif á verðtryggð inn- og útlán ef stuðst væri við samræmda vísitölu neysluverðs en samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Í grunninn má ætla að breytingin yrði því til hagsbóta fyrir þorra skuldara en hið gagnstæða gilti um eigendur verðtryggðs sparifjár sem að stærstu leyti eru lífeyrissjóðirnir.

Alþýðusamband Íslands skoraði nýlega á stjórnvöld og Alþingi að beita sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar.

Eins og að framan segir er með þingsályktunartillögu þessari lagt til að kannaðir verði til hlítar kostir þess og gallar að taka upp samræmda vísitölu neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs við útreikninga verðbólgu og verðtryggingar hér á landi með sérstöku tilliti til lána- og launakjara almennings, stöðu verðtryggðra lána og áhrifa á vexti, þar á meðal hugsanlegra afleiddra áhrifa. Niðurstöður þeirrar greiningar geta í kjölfarið nýst sem grundvöllur heildræns mats á því hvort og með hvaða hætti ráðist verði í breytinguna.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni þessarar þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir. Við hv. flutningsmenn teljum að um mjög varfærnislega tillögu sé að ræða þar sem við ályktum að hæstv. fjármálaráðherra skipi starfshóp um þetta mikilvæga málefni og skoði allar hliðar. Við vonum svo sannarlega að þessi mikilvæga tillaga nái fram að ganga og vinna við þetta málefni fari af stað. Við hv. þingmenn flutningsmenn tillögunnar munum fylgja þessu máli eftir og skoða framgang þess í þinginu.

Ef þetta gengur eftir munum við að sjálfsögðu kalla eftir niðurstöðum skýrslunnar og vert er að taka það fram að þessi tillaga okkar Framsóknarmanna er jafnframt tilraun til að fá fleiri hv. þingmenn í lið með okkur til að vinna að þeim áhrifum sem verðtrygging getur haft á skuldsett heimili í landinu. Eins og margir vita lögðum við til afnám verðtryggingar af neytendalánum fyrir alþingiskosningarnar 2013. Það kom síðan í ljós þegar til þingstarfa var komið að ekki var meiri hluti fyrir fullu afnámi verðtryggingar, enda höfðum við mörg hver og höfum ólíkar skoðanir á þeirri hugmyndafræði. Því reyndum við í störfum okkar, bæði með því að leggja fram þingmál og með því að skrifa greinar og ræða þetta, að opna möguleika á annars konar aðgerðum til að minnka áhrif verðtryggingar á íslensk heimili.

Í því samhengi m.a. skrifuðum við hv. þingmenn, ég og Gunnar Bragi Sveinsson, grein um verðtrygginguna. Með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa aðeins upp úr þeirri grein. Hún birtist þann 11. ágúst 2016 á Vísi, en þar segir m.a.:

„Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig „draga megi úr vægi verðtryggingar“ þannig að slíkt lánsform verði að minnsta kosti ekki í boði af húsnæðislánum. Þær hugmyndir sem settar hafa verið fram eru m.a. að setja þak á verðtryggingu þannig að lántaki og lánveitandi skipti með sér áhættu. Þannig að ef verðbólgan fer yfir ákveðna prósentu þá taki lánveitandi á sig áhættuna umfram það.“

Önnur hugmynd sem varpað hafði verið fram var að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis yrði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Þannig, eins og þessi þingsályktunartillaga kveður á um, væri húsnæðisþátturinn tekinn út úr vísitölunni.

Í greininni segir jafnframt að þingmál þessa efnis, þ.e. um samræmda vísitölu neysluverðs, hafi verið lagt fram af þingmönnum Framsóknarflokksins. Það hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi, en er lagt fram aftur hér. Þetta sýnir þá staðfestu sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa í þessum málum.

Einnig segir í greininni frá hugmynd um að setja takmarkanir á fjölda þeirra verðtryggðu lána sem lánastofnanir geta átt, en það er nú svo að verðtryggð lánasöfn eða eignasöfn bankanna aukast verulega þegar verðbólga fer af stað. Það verður eignatilfærsla frá heimilum landsins til fjármálastofnana.

Að auki er fjallað um breytta útreikninga á verðtryggingunni í greininni, en hugmyndin er að breyta útreikningi verðtryggðra lána þannig að breytingar á vísitölu reiknist og greiðist af hverjum gjalddaga fyrir sig en ekki af höfuðstól. Þannig kæmum við í veg fyrir snjóboltaáhrif sem verðtrygging getur haft á lánasöfn ef til verðbólguskota kemur.

Virðulegur forseti. Það ber að fagna því, þótt við hv. þingmenn Framsóknarflokksins höfum viljað ganga lengra á síðasta kjörtímabili í verðtryggingarmálunum, að ákveðin skref voru þó stigin með aðgerðinni „fyrsta fasteign“, lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Í þeim lögum voru þrjár leiðir sem rétthafar gátu valið á milli við ráðstöfun á viðbótargjaldi í séreignarsparnaði, en þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu fasteign, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð yfir 10 ára samfellt tímabil, og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán sem tryggt var með veði í fyrstu íbúð sem greiðsla inn á höfuðstól þess.

Úrræðin standa öllum til boða sem greiða eða munu greiða í séreignarsparnað og hafa ekki áður átt fasteign. Með þessum lögum var ákveðinn hvati til töku óverðtryggðra lána. Þarna var um að ræða varanlegt úrræði. Því var ætlað að draga úr vægi verðtryggingar, lækka greiðslubyrði og höfuðstól fyrstu fasteignalána og safna eigin fé fyrir fyrstu íbúð.

Ég fer ekkert í felur með það að ég hefði viljað ganga lengra í þessum aðgerðum, að opnað hefði verið á það að þeir sem misstu húsnæði í hruninu hefðu getað tekið þátt í aðgerðinni eða þeir sem hafa ekki átt húsnæði til fjölda ára og hafa átt í erfiðleikum með að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn aftur. En tíminn var knappur við þessa lagasetningu og þessa vinnu. Eins og í mörgum öðrum störfum var um málamyndanir að ræða. Þessi aðgerð, fyrsta fasteign, var þó skref í rétta átt, en tölur sýna að á síðasta ársfjórðungi síðasta árs voru fyrstu kaup á bilinu 23–29% af veltu á fasteignamarkaði sem var aukning frá fyrri árum.

Virðulegur forseti. Afnám verðtryggingar er okkur Framsóknarmönnum mörgum mikið hjartans mál, en við sjáum og höfum fundið í þinglegum störfum okkar að það hefur ekki verið meiri hluti fyrir þeim aðgerðum. Við leyfum okkur þó að varpa fram nýjum hugmyndum og horfa til nágrannalandanna í þeim efnum.

Þessa dagana sjáum við jafnframt fréttir af hækkun fasteignaverðs. Mig langar í því samhengi að lesa brot úr pistli sem Vilhjálmur nokkur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, skrifaði núna í morgun, en hann segir, með leyfi forseta:

„Það er gjörsamlega magnað og óskiljanlegt, en enn og aftur er það hækkun á fasteignamarkaði og hækkun leiguverðs sem keyrir verðbólguna áfram. Þetta á bæði við fyrir hrun og eftir hrun. En í dag er 12 mánaða verðbólga 1,9%. Ef húsnæðisliðurinn er ekki tekinn með þá er verðbólgan neikvæð um 0,9%. Þetta þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað um 38 milljarða á síðastliðnum 12 mánuðum, en ef húsnæðisliðurinn væri ekki með þegar kemur að verðtryggingum fjárskuldbindinga þá hefðu skuldir heimilanna lækkað um 18 milljarða. Hér er um mismun upp á 56 milljarða að ræða, íslenskum heimilum og neytendum í óhag.“

Enn langar mig að lokum, með leyfi forseta, að vitna í orð og pistil Marinós G. Njálssonar, en hann segir, með leyfi forseta:

„Á fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands með efnahags- og viðskiptanefnd þann 26. apríl síðastliðinn viðurkenndi Már Guðmundsson að Seðlabanki Íslands væri eini Seðlabankinn sem notaði verðbólgumælingu með húsnæðislið við vaxtaákvörðun. Hann skýrði það út með því að menn væru ekki sammála, en sleppti því að útskýra af hverju Seðlabankinn væri með ósamanburðarhæfa aðferð.“

Í pistlinum segir að seðlabankastjóri hafi sagt að við skilgreindum húsnæði sem neyslu, en svo er ekki. Við fjárfestum í húsnæði og notum það sem leið til sparnaðar. Það hefur ekki komið nein haldbær skýring á því hvers vegna Seðlabankinn notar annars konar verðbólgumælingu en aðrir seðlabankar við stýrivaxtaákvarðanir.

Ég vona að ef þessi starfshópur verður að veruleika, sem við vonum svo sannarlega, verði þessi atriði skoðuð samhliða þeirri vinnu.

Ég vona að umræða verði um þetta þingmál og legg til að henni lokinni að málið fari til efnislegrar vinnslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.