146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:45]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða sem hér var flutt er einhver magnaðasta lofgjörð um hagstjórn á evrusvæðinu sem ég hef heyrt þ.e. að hér eigi að taka upp verðbólgumælingar á evrusvæðinu og nota þær við allsherjarhagstjórn á Íslandi. Mér er kunnugt um að hin samræmda vísitala neysluverðs er í því formi sem hún er núna vegna þess að aðildarlöndin hafa ekki komið sér saman um það hvernig á að taka á húsnæðisliðnum, þ.e. í verðbólgumælingum og fella inn í vísitöluna. En það er ósköp einfaldlega grundvallarmisskilningur, sem virðist fyrst og fremst vera í hausnum á Framsóknarmönnum, að húsnæði sé ekki neysla. Húsnæði er varanleg neysla og er hluti af neyslu fólks rétt eins og matur. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði: Þetta er ekki neysla vegna þess að ég borða það ekki. Ég borða ekki bifreiðaeldsneyti en samt er það hluti af neyslu minni.

Ég ætla því að spyrja hv. þingmann: Væri það ekki ákveðin lausn í þessu máli að fólk gæti valið sér viðmiðin þannig að t.d. þegar húsnæðisverð hefur hækkað mikið fengi það þau kjör sem eru á vísitölu neysluverðs eins og hún er mæld núna með fasteign og þegar húsnæði lækkar hefði það hagsbót af því, eða þá að fólk gæti valið sér þessa samræmdu evruvísitölu sem Framsóknarmenn dást svo að núna? En þá kemur upp annað mál sem er að það kunna að vera mismunandi raunvextir á þessu. Þingsályktunartillagan fjallaði ekkert um þau kjör sem fylgja til viðbótar þessum verðbólgumælingum.

Ég ætla að ljúka máli mínu núna, virðulegi forseti. Ég á annað andsvar inni.