146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:50]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að brigsla mér um nokkra þröngsýni í þessu máli. Ég lagði meira segja til þann kost að fólk gæti valið sér kjör. En það fylgdu því væntanlega breytilegir vextir.

Það var sett fram sú fullyrðing að með þessari aðferð til að mæla eða búa til lánakjör væri verið að flytja verðmæti frá heimilum til einhverra annarra. Það vill svo til að stærsti eigandi verðtryggðra eigna í þessu landi eru heimili í gegnum lífeyrissjóði. Það getur vel verið að það sé slæmur kostur að tryggja lífeyri í landinu ef það er málið.

Það sem ég vil segja er ósköp einfaldlega að auðvitað er verðbólga mæld með mismunandi hætti. Það er mældur byggingarkostnaður. Það er mæld vísitala neysluverðs með þeim liðum sem þjóðin brúkar að meðaltali og það er m.a. með fasteignum, vegna þess að við njótum fasteignarinnar, og án fasteigna og síðan þessi evrópski mælikvarði til þess að við séum nokkurn veginn samanburðarhæf við evrulöndin sem Framsóknarflokkurinn dáist að og er það vel.

Ég vara við því að hér verði einhver töfralausn á þessu, alveg eins og var haldið fram á síðasta þingi að afnema ætti verðtryggingu. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Þið hafið fengið það og hér eru … (Gripið fram í.) — Ég hef aldrei verið á móti því en ég hef hins vegar varað við þeirri fölsun sem felst í svona fullyrðingu, vegna þess að svokölluð óverðtryggð lán eru með u.þ.b. 1% verri kjörum fyrir lántakendur en svokölluð verðtryggð lán. Reynið nú að hafa skynsemi í hlutunum. Auðvitað má skoða (Gripið fram í.) alla hluti.