146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir verulega hressilegt andsvar. Við hv. þingmaður erum ekki sammála um þetta en flestir sem ég hef átt samtal við telja að fasteignakaup séu ekki neysla heldur fjárfesting. Maður veltir þá fyrir sér hvort ýmis áhugamál fólks, eins t.d. söfnun málverka, sé neysla eða fjárfesting eða ef fólk vill safna fornbílum og ýmislegt annað. En við Framsóknarmenn erum, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason veit, afar skynsamt fólk, ég þarf ekki að segja honum það. Við tölum ekki í töfralausnum. Mig langar að lesa upp markmið tillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp“ — hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason — „óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu“ — að greina kosti og alla þannig við sjáum bæði ef það er eitthvað jákvætt við það og ef það er eitthvað neikvætt við það — „og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september 2017.“

Segjum svo, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, að þetta mál næði fram að ganga. Þá fengi Alþingi vonandi skýrslu um málið sem í væru kostir og gallar málsins sem gætu komið til efnislegrar umræðu. Þá tæki fólk umræðu um þætti sem lægju fyrir. Ég teldi það til mikilla bóta fyrir okkur í þessari umræðu á hinu hv. Alþingi.