146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp bara til að leggja áherslu á það sem 1. flutningsmaður þessarar tillögu lagði út af og lagði af stað með, þ.e. að við teljum mjög mikilvægt að sú leið sé vandlega skoðuð að taka upp þessa samræmdu vísitölu í ljósi þess að óvíða þekkist að húsnæðisþátturinn sé með jafn afgerandi hætti inni í mælingunum eins og hér er á Íslandi. Það hefur líka verið bent á, bæði í ræðu hv. þingmanns og einnig í riti að þetta getur haft veruleg áhrif á það hvernig verðbólga og þá í raun húsnæðiskostnaðurinn þróast. Greinar hafa verið skrifaðar. Í það minnsta man ég eftir að hafa lesið grein í Morgunblaðinu þar sem var einmitt verið að ræða það að taka ætti upp sérstaka vísitölu húsnæðis. Ég man því miður ekki hvað viðkomandi heitir sem skrifaði þá grein, en færð voru ágætisrök fyrir því að óvarlegt væri að þessi liður væri inni í þeirri vísitölu sem er notuð til að mæla verðbólguna, hægt væri að búa til sérstaka vísitölu um húsnæði, t.d. út frá kaupsamningum og slíku.

Það sem vakir að sjálfsögðu fyrir okkur er að þegar eitthvað hækkar eða breytist í þeirri vísitölu sem notuð er hafi það ekki bein áhrif á skuldir heimilanna eins og við þekkjum svo vel. Þess vegna er verið að skoða þessa leið. Margar aðrar leiðir eru til þess að draga úr áhrifum verðtryggingarinnar eða vísitölunnar á húsnæðisþáttinn sérstaklega, og er það að sjálfsögðu allt opið enn þá.

Því miður er það þannig að allt of lítill vilji hefur verið, sem er erfitt að útskýra, á Alþingi og reyndar í samfélaginu líka til að taka á þessum spíral sem við vitum hvernig er með lán heimilanna þegar verðbólgan fer mögulega af stað. Lítill stuðningur hefur verið við það vegna þess að við erum, held ég, orðin svo — maður má nú ekki sletta í þessum ræðustól — þetta er orðið einhvern veginn svo innbyggt í samfélag okkar allt saman, verðtryggingin og slíkt. Ég get tekið undir það með mörgum sem hafa talað hér í þinginu og annars staðar að mikilvægt sé að horfa á rót vandans sem er kannski vaxtakjörin í landinu.

Því miður hafa menn verið svolítið fastir í því að eina leiðin út úr því sé að ganga í Evrópusambandið. Ég kann nú ekki hvort hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sé akkúrat á því núna að ganga þurfi í Evrópusambandið, en það væri vitanlega eins og að hlaupa inn í brennandi hús allsnakinn, sem ég veit að þingmaðurinn vill örugglega ekki gera.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að setja í gang þessa vinnu til að skoða hvaða möguleika og tækifæri við höfum til að breyta þessum ára, þessari hringavitleysu sem ég nefndi áðan, þegar kemur að húsnæðiskostnaði á Íslandi.

Ég vil svo líka taka fram að ég er ósammála því sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni við hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að húsnæði sem slíkt, að fasteignin sé neysla. Því að mjög margir og ef ekki langflestir Íslendingar líta á það sem fjárfestingu og geyma sitt sparifé í húsnæði. Það eru ekki allir sem hafa þann kost að geyma slíkt á bankareikningum eða í einhverjum sjóðum eða einhverju slíku, menn standa bara ekki jafnt þegar kemur að þessu á Íslandi. Þetta hefur verið það form sem flestir hafa ráðlagt fólki, sérstaklega kannski ungu fólki, að gera þegar það fer af stað yfir höfuð, það er að eignast eitthvað. Það hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, þessi séreignarstefna. Maður veltir svolítið fyrir sér hvort hann sé að hverfa frá því, hvort sá flokkur sé að hverfa frá séreignarstefnunni þegar þeir þar fara að líta á þetta ekki sem eign, ekki sem fjárfestingu, heldur sem neyslu. Þá veltir maður fyrir sér hvort enginn munur sé á leigu í augum Sjálfstæðisflokksins og neyslu. Ég læt þetta duga, forseti.