146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir eldræðu hans. Ég ætla svo sem heldur ekki að freistast til að ræða þann þingmann sem stóð einn gegn öllum hinum, en það gerir það sem hann gerði ekki endilega rétt. Það eru tugþúsundir manna þarna úti, fyrir utan þetta hús, sem fundu jákvætt fyrir þessari aðgerð.

Hv. þingmaður talaði um hækkandi fasteignaverð. Það er hlutur sem er mjög áhugavert að velta fyrir sér. Ég held að það hljóti að vera alveg augljóst að ástæðan fyrir hækkandi fasteignaverði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, í þéttbýlinu, er einfaldlega sú að sveitarfélögin í þéttbýlinu hafa ekki staðið sig í að hafa nóg framboð af lóðum, af byggingarlandi. Í öðru lagi hafa þau ekki staðið sig í því að byggja íbúðir fyrir þegna sína. Við sjáum að það er mikill þrýstingur á leiguverð líka. Leiguverð hefur stórhækkað vegna þess að það er skortur á húsnæði.

Svo er annað líka. Það eru fasteignafélög sem hreinlega keppa við unga fólkið, einstaklinga, um að kaupa hús eða íbúðir sem eru í húsum sem geta nýst undir einhvers konar atvinnustarfsemi, hvort sem það er hótel eða annað sem nýtist félögunum til þess að afla tekna.

Ástæðan fyrir hækkandi fasteignaverði er fyrst og fremst sú að borgaryfirvöld í Reykjavík, og jafnvel sveitarfélögunum í kringum Reykjavík, hafa ekki staðið sig. Hér vantar þúsundir íbúða. Það er þess vegna sem fasteignaverð er að hækka. Og ekki nóg með það, þegar menn geta loksins farið í að byggja húsnæði, í hverju lenda þeir þá í Reykjavík? Fyrst þarf að kaupa lóð upp á 10–15 millj. kr., áður en byrjað er að byggja. Allt þetta er til þess að hleypa upp kostnaðinum við byggingarnar, sem getur að sjálfsögðu haft áhrif á það sem við ræddum áðan, verðbólgu og vísitölu.