146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

minning tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar.

65. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar. Flutningsmenn þessarar tillögu eru hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. Þingsályktunartillagan er endurflutt frá síðasta þingi þar sem hún var lögð fram og mælt fyrir henni. Reyndar var hún lögð fram á þingi þar áður.

Ég ætla að leyfa mér að lesa tillöguna eins og hún hljóðar:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að láta minnast Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara, með tilhlýðilegum hætti þegar tvær aldir eru liðnar frá fæðingu þessa merka fræðimanns á sviði menningararfs. Verði Jóns m.a. minnst með því að Landsbókasafn Íslands og Háskóli Íslands standi fyrir veglegri ráðstefnu um lífsstarf hans. Þá verði sett upp lágmynd af Jóni í húsakynnum Landsbókasafns Íslands og einnig norður á Skaga, sem næst fæðingarstað hans. Slíkt látlaust minnismerki hæfði vel minningu Jóns. Kostnaður við ráðstefnuhald og gerð minnismerkis greiðist úr ríkissjóði og tillit verði tekið til þess í fjárlögum.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir:

Jón Árnason, landsbókavörður og þjóðsagnasafnari með meiru, fæddist á Hofi á Skagaströnd 17. ágúst 1819. Hann lést 4. september 1888. Hvíla bein hans í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Jón og kona hans Katrín áttu ekki afkomendur sem komust á legg og má segja sem svo að minningu þeirra hafi ekki verið haldið uppi kannski vegna þess að þau áttu ekki afkomendur.

Jón Árnason og Magnús Grímsson hófu söfnun íslenskra þjóðsagna um miðja 19. öld. Þjóðernisvakning 19. aldar hafði m.a. í för með sér áhuga á þeim frásögnum sem gengu mann fram af manni og enginn vissi höfund að og var farið að kalla þjóðsögur. Margir leikmenn og fræðimenn um alla Evrópu hófu að safna sögum, hver í sínu heimalandi. Áhrifamesta safnið var án efa safn þýsku bræðranna Grimm, Jacobs og Wilhelms Grimms, sem gáfu út Grimmsævintýri á árunum 1812–1815. Árangur af söfnun Jóns Árnasonar og Magnúsar leit dagsins ljós 1852 í bókinni Íslenzk æfintýri.

Fyrir forgöngu Jóns Sigurðssonar forseta og velvild Konrads Maurers kom út í Leipzig 1862 og 1864 tveggja binda útgáfa þjóðsagnasafns sem kennt er við Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Heildarútgáfa safnsins birtist síðan á prenti á árunum 1954–1961. Einn merkasti þjóðsagnafræðingur Evrópu á síðustu öld, írski fræðimaðurinn Séamus Ó Duilearga, lét þau ummæli falla að safn Jóns Árnasonar væri þjóðsagnasafn sem ætti engan sinn líka í víðri veröld.

Um Jón Árnason landsbókavörð segir í árbók Landsbókasafns 1944:

„Það orkar ekki tvímælis, að hann er mestur verðleikamaður og gagnsmestur þeirra bókavarða, sem að safninu hafa komið hingað til, og myndi hans hafa notið enn betur, ef safnið hefði á fyrri árum hans haft betri fjárráð.“

Það er eðlilegt að slíks fræðimanns sem Jón Árnason var verði minnst með tilhlýðilegum hætti. Áætlaður kostnaður við gerð og uppsetningu lágmynda er 2 millj. kr. Áætlaður kostnaður við ráðstefnu og gestakomur henni tengdar er einnig 2 millj. kr.

Nú ætla ég ekki að fastsetja þessar tölur. Þetta er einungis áætlun. Ég vænti þess að hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd horfi til þessara talna og síðan fjárlaganefnd þegar þar að kemur. En ég tel að Jón Árnason hafi kannski legið dálítið óbættur hjá garði vegna þess að á liðinni öld börðumst við fyrir endurheimt handrita frá Danmörku og Árni Magnússon handritasafnari var áhersluatriði síðustu aldar. En nú hefur Háskóli Íslands og stofnun hans, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hafið vinnu við verkefni sem heitir Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Það er hægt að skoða það verkefni á vefnum jonarnason.is. Þar segir m.a. að liðin voru 150 ár frá því að lokabindi 1. útgáfunnar kom út árið 2014 og þá var þessu verkefni hleypt af stað. Það miðar að því að kortleggja uppruna sagna og heimildarmanna.

Ég átti þess kost fyrir nokkrum vikum að sitja laugardagseftirmiðdag á ráðstefnunni sem haldin var um þetta verkefni. Ég var mjög þægilega ánægður með hvað unnið er vel í þessu efni og sömuleiðis kemur fram á þessum vef að á undanförnum árum hafa farið fram mjög víðtækar og miklar rannsóknir á íslenskum þjóðsögum og samhengi þeirra við þjóðsögur í Evrópu á sama tíma. Hér er verið að vinna mjög merkilega vinnu og ég tel að Alþingi beri að styðja við hana. Þetta er ekki ómerkari menningararfur en ýmis annar og reyndar ætla ég ekki að flokka íslenskan menningararf eftir merkilegheitum. Þjóðsögurnar eru mikill og merkur menningararfur sem hafa átt greiða leið að íslenskum lesendum í þeim útgáfum sem út hafa komið, bæði útgáfan 1862 og 1864, reyndar var það svo að útgáfunni 1852 var ekkert sérlega vel tekið. En alla vega voru útgáfurnar 1862 og 1864 og síðasta útgáfan, 1954-1961, mikið lesnar og eru enn.

Það kann að vera að það þurfi og beri að skoða aðra þjóðsagnasöfnun því að það kom í ljós á þessari ráðstefnu um daginn að uppruni heimildarmanna hjá Jóni Árnasyni og Magnúsi Grímssyni er dálítið staðbundinn. En þá eru til þjóðsagnasafnarar eins og Ólafur Davíðsson, Sigfús Sigfússon og fleiri, Ásmundur Helgason sem var bóndi austur á landi, útvegsbóndi á Bjargi í Reyðarfirði, sem lagði örlítið til, þannig að það voru ýmsir, leikir og lærðir, sem lögðu til þessa verkefnis. Þetta er einungis einn angi af því að minnast þessa merka manns, Jóns Árnasonar, þegar tvær aldir eru liðnar frá fæðingu hans og ég vona að Alþingi verði við þessari tillögu.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.