146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að reifa hér málið þótt ekki liggi fyrir svör við þeirri fyrirspurn sem ég bar fram. Það liggur fyrir, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að landlæknir hefur skilgreint þetta sem sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Það kom fram líka hjá hæstv. ráðherra að væri farin sú leið að semja við Klíníkina væri það grundvallarstefnubreyting, því að hingað til hefur eingöngu verið samið við hið opinbera um svo flókna sjúkrahúsþjónustu.

Ég vil nefna það hér að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er talað um að móta heildstæða heilbrigðisstefnu. Ég vil því í fyrsta lagi segja að ég tel mjög mikilvægt að slík stefna verði mótuð áður en slíkar grundvallarstefnubreytingar eru ákveðnar og að hún verði mótuð í góðu samtali bæði innan þings og utan við sem flesta aðila.

Í öðru lagi vil ég segja að ég öfunda ekki hæstv. ráðherra af því að standa frammi fyrir þessari ákvörðun, því að henni fylgir mjög þung pólitísk (Forseti hringir.) ábyrgð. En ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra horfi til þess að það er stórpólitísk ákvörðun að færa með þessum hætti skattfé almennings úr hinu opinbera kerfi yfir til einkaaðila (Forseti hringir.) og taka um leið ákvörðun um grundvallarstefnubreytingu.