146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stefnumótun um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að starta þessari umræðu, en ég er með spurningar á svipuðum nótum til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Í ljósi þess að margoft hefur komið fram að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga vill ekki einkarekið heilbrigðiskerfi langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji skynsamlegt að fara í stefnumótun um frekari einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins. Og ef svo er, hvort hann muni viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum og ráðfæra sig við þingið eða hvort þetta sé ákvörðun sem hann muni bara taka einn og sér. Hver er afstaða ráðherra til þess að Klíníkin fái samning við Sjúkratryggingar Íslands um að fá greitt úr DRG-greiðslukerfinu? Þarf Klíníkin að sækja starfsleyfi til ráðherra eða hafa Sjúkratryggingar Íslands vald til að semja án aðkomu ráðuneytisins, mun ráðherra þurfa að gefa starfsleyfi samanber 7. gr. heilbrigðislaga?

Ætlar ráðherra að gera einhvers konar mat á því hvers konar áhrif innkoma Klíníkurinnar sem sjúkrahússeiningar muni hafa á opinbera heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Bæði hvað varðar mannafla, þjónustugetu og innkomu? Ef svo er, hvers konar mat og hver mun framkvæma það? Hvert er hið formlega ákvörðunartökuferli í sambandi við Sjúkratryggingar Íslands og hvernig er ákveðið hvort Klíníkin fái úr þessum sjóði? svo ég árétti spurningarnar, ég veit að þær eru margar. Vonandi nær hæstv. ráðherra að svara þeim öllum skýrt.