146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

raforkukostnaður garðyrkjubænda.

[10:53]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Einn af þeim þáttum sem hefur veruleg áhrif á afkomu garðyrkjunnar er hátt raforkuverð sem garðyrkjubændur verða að greiða. Ég fór á fund garðyrkjubænda nýlega og þar kom einnig fram að endurnýjun í stéttinni er sáralítil, fyrst og fremst vegna hás fjárfestingarkostnaðar og stopullar afkomu vegna þessa háa raforkuverðs. Við flytjum inn ríflega 25 þús. tonn af grænmeti samkvæmt tölum frá 2015 og ræktum um 15 þús. tonn sjálf þannig að þarna eru greinilega sóknarfæri.

Þetta mál er alls ekki nýtt af nálinni og oft hefur verið fjallað um það í þessum sal. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson lagði til að mynda fram þingsályktunartillögu ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins á 138. þingi sem var samþykkt. Með henni ákvað Alþingi að fela iðnaðarráðherra að kanna leiðir til að lækka rafmagnskostnað garðyrkjubænda, sérstaklega dreifingarkostnað. Tillagan fór frá ráðherra til nefndar, en síðan hefur ekkert til hennar spurst og ekkert komið frá ráðuneytinu um þetta mál samkvæmt þeim gögnum sem ég hef undir höndum.

Aftur var fjallað um málið á 144. þingi í munnlegri fyrirspurn til ráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Í svari sínu segir ráðherra, með leyfi forseta:

„Frá því ég tók við núverandi embætti höfum við í ráðuneytinu átt þó nokkra fundi, ýmist ég sjálf eða mínir starfsmenn, með fulltrúum garðyrkjubænda og verið í góðu samstarfi við þá. Þar hefur verið farið yfir þróun raforkuverðs til garðyrkjubænda, stöðu þeirra í samanburði við aðra raforkunotendur í landinu og hugmyndir sem þeir hafa lagt fram um breytingar á gjaldskrá vegna sölu á raforku til þeirra. Þessi vinna er enn þá í gangi en niðurstöður liggja ekki fyrir að svo stöddu, enda eru til fleiri en ein aðferð við að koma til móts við þessi sjónarmið.“

Þetta var árið 2014. Í framhaldi af þessu vil ég því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hvar er þessi vinna stödd í ráðuneytinu?

2. Hvaða sýn hefur ráðherra á málið, hyggst hún beita sér fyrir lækkun raforkuverðs til bænda?

3. Kæmi til greina að breyta raforkulögum, ef þau eru fyrirstaðan, svo hægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á gjaldskrá og tryggja þannig afkomu garðyrkjunnar?