146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir góða og áhugaverða ræðu. Ég vil spyrja hvort það sé réttur skilningur minn á ræðu hans að hann telji að það eigi að vera fortakslaust sjálfstæður réttur feðra sem ekki sé a.m.k. nema að hluta til yfirfæranlegur. Það hlýtur að vera hin hliðin á peningnum varðandi það að báðir foreldrar taki fæðingarorlof, að rétturinn sé að einhverju leyti sjálfstæður báðum megin og ekki yfirfæranlegur. Að sjálfsögðu vitum við öll að þegar þökin voru færð verulega niður verkaði það letjandi á, við skulum segja tekjuhærra foreldrið, í hvoru tilviki sem var, að nýta sinn hluta fæðingarorlofsins. Veruleikinn er enn í dag sá að það eru að uppistöðu til karlar sem eru tekjuhærri og tilhneigingin þar af leiðandi að þeir taki síður fæðingarorlof, er mjög rökrétt í raun og veru þegar þessir hlutir eru skoðaðir.

Mér þætti fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður sé ekki þeirrar skoðunar að sjálfstæður réttur feðra eða sjálfstæður réttur beggja foreldra sem að verulegu leyti sé ekki yfirfæranlegur eigi ekki að vera áfram hluti af þessu kerfi. Alla vega er ég þeirrar skoðunar.

Ég tel reyndar að það eigi ekkert endilega að vera að gera upp á milli þess hvort sé mikilvægara að lyfta þökunum, hvort sem við miðum við meðallaun eða 2/3 af þingfararkaupi eða hvar það nú væri sem við ættum að draga strikið, og að lengja það. Það á ekki að stilla þessu upp sem andstæðum. Í mínum huga er hvort tveggja gríðarlega mikilvægt.

Að lokum vil ég svo bara harma það ef bar að skilja ræðu hv. þingmanns þannig að hann væru hættur barneignum. Ég tel að það sé mjög misráðið.