146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það virðist vera svo að við séum sammála að öllu leyti nema þá þessu eina, hv. þingmaður hefur þá afdráttarlausu skoðun að það sé meira forgangsatriði að hækka þökin en lengja fæðingarorlofið. Ég vil helst hafa þetta hlið við hlið sem jafn gild markmið og taka þá skref á báðar hliðar samhliða. Auk þess tel ég að þetta sé okkur ekki ofvaxið á nokkurn hátt. Útreikningarnir í frumvarpinu sem hér er til umræðu sýna að tryggingagjaldsstofninn hefur styrkst svo verulega að nú þarf ekki nema mun lægra hlutfall til þess að fjármagna að fullu lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði en hefði þurft fyrir nokkrum árum síðan. Þegar Fæðingarorlofssjóður var kominn í vanda þegar komið var dálítið inn í kreppuna á sínum tíma eftir hrunið var um tíma nauðsynlegt að hækka hlutdeild hans í tryggingagjaldi í 1,22% ef ég man rétt, alla vega 1,2% af tryggingagjaldsstofninum. Síðan var hann helmingaður niður í 0,62. Hér er talið nægjanlegt að fara upp í 0,9. Við hljótum að ráða við að ráðstafa innan við einu prósentustigi af tryggingagjaldsstofninum í fæðingarorlofskerfið. Ég held að við gætum gert það með því að ríkið gæfi í skrefum eftir hlutdeild í tryggingagjaldinu. Frumvarpið gengur út á það. Við erum ekki að tala um að hækka það. Það er í raun algerlega sjálfstætt mál hvað ríkið gerir svo við sína hlutdeild í tryggingagjaldinu að öðru leyti. Það er allt annað mál. Hér er verið að færa upp hinn markaða tekjustofn sem ég tel að eigi áfram að fjármagna þetta.

Jafnréttið er að sjálfsögðu gífurlega mikilvægur þáttur í þessu þó að margt fleira skipti hér (Forseti hringir.) máli sem ég mun koma betur inn á í minni ræðu. En það er ánægjulegt að það sé samstaða um grundvöll kerfisins í þessum skilningi, að það eigi að vera til staðar sjálfstæður réttur beggja foreldra. Það var aðalsmerki hins íslenska kerfis (Forseti hringir.) sem vakti athygli um lönd og álfur og margar þjóðir hafa síðan tekið upp að okkar fordæmi.