146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lögum um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Eins og fram kom í ræðum og umræðum áðan er þetta eitt af forgangsmálum þingflokks Vinstri grænna og í andsvörum þakkaði ég hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, sem flutti framsögu að málinu, fyrir að flytja það. Eins og jafnframt kom fram áðan í andsvörum þá styð ég málið. Þetta er afar gott mál. Ég hef haft mikinn áhuga á þessum málum, hef setið í hv. velferðarnefnd til nokkurs tíma þar sem þau mál hafa verið til umfjöllunar og auk þess ætlaði ég að leggja fram mál um þetta en sá síðan þetta viðamikla mál frá þingflokki Vinstri grænna og vil leggja mitt til málanna varðandi það.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lagðar eru til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að réttur til þess hækki úr núverandi níu mánuðum í 12 mánuði í tveimur þrepum á árunum 2018 og 2019. Verði frumvarpið að lögum mun heildarlengd fæðingar- og foreldraorlofs verða 11 mánuðir árið 2018 og 12 mánuðir árið 2019. Gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs skiptist þannig milli foreldra að hvort um sig hafi rétt til fimm mánaða en eigi tvo mánuði sameiginlega og geti skipt þeim með sér eins og verkast vill. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að báðir foreldrar nýti að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs til að vera með börnunum sínum og að foreldrar nýti sameiginlegan rétt sinn að jöfnu.

Eins og fram kom í umræðum snýst þetta auðvitað um rétt barnsins til samvista með foreldrum sínum. Eins og kom fram hjá mér í andsvörum áðan hef ég talsvert rætt þetta mál og verið að viðra það við fagfólk í greininni, þ.e. ljósmæður og þær sem hafa verið að sinna heimaþjónustu, aðallega þá ljósmæður. Þær umgangast auðvitað talsverðan fjölda af fólki í fæðingarorlofi. Sumt þetta fagfólk hefur, þetta eru nokkrar manneskjur, verið að lýsa fyrir mér áhyggjum sínum af einstæðum foreldrum, foreldrum sem hafa ekki maka sér við hlið eða tilvist annars foreldrisins, það sé ekki til staðar. Það geta verið um ýmsar ástæður að ræða og jafn mismunandi og þær eru margar. Fagfólk þetta hefur lýst áhyggjum af því, í þeim tilvikum sem við mig var rætt, að þarna séu mæður sem hafi ekki einu sinni nýtt og fullklárað það fæðingarorlof sem lögin veita þeim nú þegar rétt til að taka því að fjárhagsleg staða hefur verið erfið og foreldrið hafi bara þurft að fara út á vinnumarkaðinn áður en fæðingarorlofi lauk.

Hins vegar er ég sammála því sem fram hefur komið í ræðum hjá hv. þingmönnum að stíga verður mjög varlega til jarðar í því að setja stórar undanþágur við þessa löggjöf. Ég velti fyrir mér, og þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða mjög vel í vinnu hv. velferðarnefndar, hvort það séu önnur tæki og tól sem við höfum til að ná því markmiði að styðja betur við þessa hópa heldur en undanþágur frá þessari löggjöf, eða hvort það séu einhverjar undanþágur. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég sem hv. þingmaður í hv. velferðarnefnd mun kalla eftir upplýsingum um og skoða hvernig okkar félagslega velferðarkerfi geti stutt við þessa hópa. Því að við erum eins og ég sagði áðan að hugsa um hagsmuni barnsins. Þetta eru hagsmunir barnsins og einhver börn njóta ekki jafnræðis á við þau börn sem hafa báða foreldra sér við hlið. Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða og stíga varlega til jarðar upp á jafnréttissjónarmið að ræða.

Eins og fram kom í andsvari við hv. flutningsmann lítur hún svo á að frumvarpið sé grundvöllur til heildarendurskoðunar á löggjöfinni í hv. velferðarnefnd og að það liggi jafnvel mun fleiri þættir undir en fram koma í löggjöfinni eða í frumvarpinu. Ég tel að farið verði mjög vel í þetta í nefndinni, að skoða þessa þætti.

Núverandi ríkisstjórn hefur gefið það út í stjórnarsáttmála að hækka eigi greiðslur í fæðingarorlofi. Jafnframt kom það fram í ræðu í morgun hjá hv. þingmanni að fram hefði komið í fréttum í morgun, að ég tel, að hæstv. félagsmálaráðherra hafi talað um það í einhverri blaðagrein að það væri einnig ætlun ríkisstjórnarinnar að brúa með einhverjum hætti það bil sem er á milli fæðingarorlofs og leikskóla. En þetta frumvarp snýr einmitt að því að lengja fæðingarorlofið til þess að bilið verði minna.

Mig langar að ræða eitt atriði aðeins því að það kemur fram í greinargerð að á síðasta kjörtímabili hafi verið stigið skref til baka þar sem í upphafi þess kjörtímabils hafi verið hætt við þá lengingu sem ríkisstjórnin þar á undan hafi ákveðið varðandi fæðingarorlofsmálin. Minni þó á að í tíð síðustu ríkisstjórnar, þar sem Framsóknarflokkurinn var í forustu, þ.e. í lok þess kjörtímabils voru hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkaðar frá 370 þús. kr. upp í 500 þús. kr. Mikilvægt var að vinna að því, því að í skýrslu starfshóps um endurskoðun á þessari löggjöf og í tölum sem við hv. þingmenn höfum verið að sjá og fram hafa komið í fjölmiðlum á undanförnum árum, er sýnt fram á það að eftir að þakið á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi var lækkað þá voru færri feður sem nýttu sér fæðingarorlof. Auðvitað voru þetta aðgerðir. Ég er ekki að kenna einum eða neinum um eitt né neitt, þetta voru bara nauðsynlegar aðgerðir sem þurfti að fara í á sínum tíma, en með auknu svigrúmi er nauðsynlegt að hækka greiðslurnar því að við viljum að barnið njóti samvista við báða foreldra ef þeir eru til staðar.

Mig langar í örstuttu máli að fara aðeins yfir það sem fram kom í skýrslu sem starfshópur um endurskoðun á fæðingarorlofsmálunum lagði til í vinnu sinni. Fyrrverandi hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, stýrði þeim hópi og ýmsir hagsmunaaðilar úr samfélaginu tóku sæti þar og sögðu sínar skoðanir. Hæstv. þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, núverandi hv. þingmaður Framsóknarflokksins, skipaði nefndina og lagði til að endurskoðun færi fram. Þar var lagt til að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrðu 600 þús. kr. og að tekjur allt að 300 þús. kr. á mánuði myndu ekki skerðast líkt og nú er.

Eins og kom fram áðan voru stigin skref í ákveðna átt með þeim 500 þús. kr. sem tóku gildi núna fyrir áramótin. Fram kom í frétt sem fylgdi niðurstöðum þessa starfshóps að hækka yrði greiðslur svo fólk gæti séð sér fært að nýta þennan rétt í meiri mæli en gert hefur verið síðustu ár, því það kom bersýnilega í ljós að feður nýttu sér fæðingarorlof í minni mæli en áður. Með því að taka þennan 300 þúsund kall og láta hann ekki skerðast væri sérstaklega verið að horfa til þeirra sem hefðu lágar og millitekjur til að koma á móts við þann hóp líka.

Eins og ég segi og fram kom í umræðum áðan er þetta frumvarp grundvöllur fyrir hv. velferðarnefnd til að vinna þetta mál, frumvarpið væri lagt fram til að ná utan um þessa mikilvægu þætti. Fæðingarorlofslöggjöfin er mikið kjaramál. Við vitum líka að mikilvægt er að lengja fæðingarorlofið til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla eða dagmömmu. Síðan er það líka bara þannig að í mörgum byggðarlögum víða úti á landi þekkist það að ekki er einu sinni hægt að koma börnunum til dagmóður því að skortur hefur verið þar á. En margar dagmömmur sinna verulega góðu og mikilvægu starfi. Við vitum að það getur haft álag í för með sér fyrir barnafjölskyldur í landinu þegar stöðugt púsluspil þarf að vera í gangi um hvernig eigi að redda málunum, hver eigi að hugsa um barnið þennan daginn og hinn daginn. Þetta hefur oft og tíðum áhrif á fjölskyldulíf.

Nú sjáum við merki um að líðan sumra barna er ekki nógu góð. Það er mikill hraði í þjóðfélaginu og töluvert stress. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna og stjórnmálamanna að skoða hvernig við getum komið á móts við barnafjölskyldur í landinu til að meiri velferð verði í kringum hlutina og til að skapa fjölskylduvænna samfélag en við erum með í dag. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að vinna að því.