146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það verði gaman þegar við förum að glíma við þetta í hv. velferðarnefnd, við sem erum svo heppin að fá að sitja þar. Kannski eru að fæðast hér í umræðunni, eins og oft gerist þegar gagnlegar og góðar umræður eiga sér stað um mál, ákveðnar hugmyndir sem eru vel þess virði að skoða, samanber þetta síðasta sem hefur verið til umræðu, að setja kannski bæði gólf og þak í kerfið, ekki bara þak sem sker ofan af hæstu launum heldur þá líka gólf sem tryggir lágmarksgreiðslur. Það held ég að sé vel þess virði.

Kosturinn við málið eins og við búum um það núna, þingflokkur Vinstri grænna, og höfum lagt vinnu í að gera, er að þetta er fullbúið frumvarp. Þetta er tilbúið frumvarp. Þetta eru þær lagaráðstafanir sem þarf að gera til að ganga frá lengingu fæðingarorlofs. Þar með er heilmikil vinna unnin. Þetta er ekki bara einhver viljayfirlýsing eða ályktun af hálfu þingsins. Hér er komið fullbúið frumvarp eins og það þarf að vera til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir í lengingu fæðingarorlofs.

Ég held að eftir því sem velferðarnefnd vinnst tími til sé hins vegar mjög gott að fara yfir stóra samhengið í málinu, taka þetta inn í umræðuna um fjölskylduumhverfi barnafjölskyldna og fjölskylduvænt barnvænt samfélag og, eins og við Vinstri græn leggjum áherslu á og höfum gert með ýmsum málatilbúnaði frá því strax í árdaga hreyfingar okkar, að líta á þetta sem hluta af því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eða tryggrar dagvistunar fyrir foreldra og að sjálfsögðu á í fyllingu tímans að fylgja því gjaldfrjáls leikskóli. Að mínu mati er þessu starfi ekki lokið fyrr en það er ekkert gat á milli fæðingarorlofs og leikskóla eða annarra tryggra úrræða og að það sé gjaldfrjálst. Það er gríðarleg tekjubót, gríðarleg búbót fyrir barnafjölskyldurnar í landinu og væri myndarlegur stuðningur við þær. Ríki og sveitarfélög eiga auðvitað (Forseti hringir.) að taka höndum saman um að setja sér tímasetta áætlun í því efni að loka þessu gati og koma á gjaldfrjálsum leikskólum.