146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:48]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir þessi bjartsýnisorð hv. þingmanns um að það séu meiri líkur en minni að frumvarpið verði að lögum. Það ber líka að líta til þeirra sjónarmiða að hér er um að ræða minnsta mögulega meiri hluta á Alþingi bak við núverandi ríkisstjórn. Skýr fyrirheit eru um samstarf við stjórnarandstöðuna í stórum málum, vilji til að leggja áherslu á jafnréttismál. Þarna erum við með þó nokkur lykilsjónarmið sem ættu að vera byr í seglin fyrir þetta tiltekna þingmál, að ég tali nú ekki um góðar undirtektir nokkurra stjórnarliða við þessa umræðu, þannig að ég tek undir það.

Almennt að því er varðar vangaveltur hv. þingmanns um að frumvörpin séu þyngri en þingsályktanir til að fást samþykkt undir lokin: Já, það kann að vera, en það er þá því miður vegna þess hvernig við höfum oftar en ekki séð hvernig þingsályktunartillögum reiðir af í ráðuneytunum. Þær hafa kannski ekki verið teknar mjög alvarlega meðan frumvörp verða að lögum og þar með fá þau stöðu í lögbókinni og eru þá alvörumál.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt fyrir alla þingmenn, ekki síst þingmenn í stjórnarandstöðu, að glíma við að ljúka við málatilbúnað sinn í formi frumvarps. Þar með er maður í raun búinn að sýna fram á hvernig hin pólitísku markmið komast fyrir í lögbókinni, ef svo má að orði komast; hvernig það spilar saman, ólíkt þeirri leið að fela ráðherra að fara í einhverja vinnu sem enginn veit alltaf upphaf og endi á.

Ég held að það geti orðið styrkur fyrir mál af þessu tagi að við sjáum nákvæmlega að þetta er hægt. Svona er hægt að gera þetta. Og að það geti hjálpað málinu.

En að lokum, virðulegi forseti, vil ég þakka kærlega fyrir góða umræðu um þetta mikilvæga mál.