146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir frumvarpið og framsögusræðu hennar. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fagna því að menn séu áhugasamir um stjórn fiskveiða, þá sérstaklega um að kanna markaðsleiðir við úthlutun á kvóta.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a.:

„Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.“

Athugið sérstaklega: „Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.“

Þetta frumvarp og hugmyndir sem þar koma fram finnst mér vera mjög gott innlegg í þá umræðu um heildstæða endurskoðun á úthlutun aflaheimilda sem nú stendur fyrir dyrum. Ég vil ítreka að ég fagna öllum hugmyndum og tillögum sem miða að þessu markmiði. Við þurfum að reyna að ná eins víðtæku samkomulagi og unnt er hér á Alþingi um farsæla langtímalausn þessa máls. Þess vegna vonast ég innilega eftir því að við getum átt gott samstarf á þinginu við könnun markaðsleiða, við stjórnarandstöðuna alla.

Ég veit, eins og hér var minnst á, að það er í það minnsta verulegur samhljómur á milli stefnu Viðreisnar og Samfylkingarinnar í þeim efnum. Það er gott fyrir þá heildarendurskoðun sem nú stendur fyrir dyrum. Ég treysti á góða samvinnu við Samfylkinguna og stjórnarandstöðuna í þeirri vinnu sem er fyrir höndum á vegum ríkisstjórnarinnar.