146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:02]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég var einmitt búinn að lesa þessa málsgrein í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og var að reyna að átta mig á hvað þetta í rauninni þýddi. Ég skildi það ekki alveg. Við höfum verið með alls konar nefndir, síðast stóra sáttanefnd þar sem var farið yfir þessi mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann á móti hvort þetta frumvarp og sú leið sem lögð er til þar, að á næsta fiskveiðiári verði viðbótaraflaheimildirnar boðnar út, sé ekki gott tæki til þess síðan að vinna að könnun á kostum, eins og talað er um í yfirlýsingunni. Ættum við ekki að gera svipað og Færeyingarnir gerðu, að gera tilraun og æfa okkur og máta aðferðir, fá sérfræðinga í útboðsmálum til að hanna útboðið eftir pólitískum áherslum og láta síðan á reyna hvað gerist?

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er aukningin frá fiskveiðiárinu 2007/2008 114 þús. tonn af þorski. Það er engin ástæða til að dreifa þeim alltaf yfir á þá hlutfallslega sem eru fyrir með kvóta. Það kemur í veg fyrir nýliðun og auk þess er ekkert réttlæti í því. En í umræðunni og leitinni að stöðugleika fyrir greinina — núna er enginn stöðugleiki í greininni, núna úthlutum við frá ári til árs — í þeirri viðleitni að fá réttlátt gjald sem rynni til eigenda auðlindarinnar og einnig til að skapa stöðugleika í greininni, (Forseti hringir.) er þetta þá ekki gott tæki sem við í þingflokki Samfylkingarinnar réttum nú ríkisstjórnarflokkunum í viðleitni þeirra að fara að kanna hlutina?