146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta bráðabirgðaákvæði sem lagt er til að verði samþykkt á við eitt fiskveiðiár. Hugmyndin er sú að gera tilraun. Ég er ekki sérfræðingur, eins og ég sagði áðan, en við ákváðum, til þess að vera sanngjörn í stöðunni, til þess að auka líkurnar á að fleiri samþykktu að við færum í þessa tilraun, að hafa þetta opið. Auðvitað er greinargerðin lögskýringargagn og þar stendur til hvers á að taka tillit þegar útboðið er gert. Ég er algerlega viss um að það vill enginn hér inni henda út einhverjum þúsund tonnum og segja: Sá sem býður best fær allt, það myndu allir vilja setja einhvers konar reglur, en hugmyndin er að reyna að stíga skref og máta aðferðir við útboð á aflaheimildum sem myndu henta íslenskum aðstæðum. Við gætum prófað. Vegna þess að reglurnar eru opnar væri hægt að prófa að bjóða út svo og svo mörg tonn á Vestfjörðum og svo og svo mörg tonn fyrir Suðurnesin og gæta að byggðasjónarmiðum. Og samþjöppunarskorður eru náttúrlega algerlega augljósar.

Þetta frumvarp er hugsað sem tilraun og skref til að brjótast út úr því kerfi sem við erum í núna. Núna er það þannig að stjórnmálamenn setja nánast puttann upp í loftið og segja: Höfum þetta 13 kall, hvað segið þið um það, strákar? Þegar bisnessinn á milli manna í útboði tvö er upp á 200 kr. Þetta er óréttlátt. Útboðið er leitin að réttlátara kerfi (Forseti hringir.) og auðvitað til þess að sjá til þess að fólkið í landinu, sem á auðlindina, fái stærri og sanngjarnari hlut til sín.