146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var margt athyglisvert að finna í því. Líkt og ég sagði í fyrra andsvari mínu hlakka ég til þessa áhugaverða verkefnis sem er fyrir höndum, að fara í alvöruendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri opinn fyrir öllum leiðum í því, líka innköllun aflaheimilda.

Það er mjög mikilvægt, ég er sammála honum um það, að ná sátt um kerfið. Það hefur hins vegar verið reynt ansi lengi og tekist þannig að við erum hér enn nýkomin úr kosningum þar sem breytingar á kerfinu urðu kosningamál og augljóst að ekki ríkir sátt um það. Að því leyti skil ég mjög vel flutningsmenn umrædds frumvarps og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur sem kom inn á það í framsögu sinni áðan.

Það er alveg ljóst að maður einhendir sér ekki í það verkefni og lýkur því á skömmum tíma. Ef á að takast að sætta öll sjónarmið í þessu efni hlýtur það að taka umtalsverðan tíma. Eitt af því sem við höfum mörg talað um er að fiskveiðistjórnarkerfið þurfi að vera sanngjarnt og skila sanngjörnu afgjaldi til þjóðarinnar, hins rétta og sanna eiganda auðlindarinnar. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort hv. þm. Ásmundur Friðriksson gæti hugsað sér að á meðan verið er að vinna að þessari heildarendurskoðun þar sem öll sjónarmið eru sætt sé gripið til þess að hækka veiðigjöld til að fá aukna fjármuni í ríkissjóð sem má þá nýta í samneysluna sem er verkefni okkar allra. Og jafnvel að skoða sérálag á stórar og vel stæðar útgerðir.