146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við bara að tala um viðbótarkvóta. Honum hefur ekki verið úthlutað enn þá. Þess vegna er svo heppilegt að prófa að bjóða hann út og æfa okkur á útboðsleiðinni.

Færeyingar gerðu tilraunir. Þeir ráku sig á ýmislegt og breyttu og gerðu áætlanir fram í tímann og ætla að halda áfram og bjóða út afla á árinu 2018. Spor þeirra hræða ekki. Þeir höfðu kjark til að gera tilraunir og læra af þeim og það eigum við líka að gera.

Ég vil spyrja hv. þingmann út af ræðu hans hér áðan einfaldrar spurningar: Hver á sjávarauðlindina?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort honum hugnist ekki betur að markaðsleið verði látin ráða þegar verðið er ákveðið frekar en að stjórnmálamaður ákveði krónutöluna og það verði alltaf einhverjir hópar í þjóðfélaginu sem gagnrýna það og telja að hann sé að draga taum eins umfram annars og hvort það að bjóða út aflaheimildirnar sé ekki líklegra til að ná sátt. Og ef við gerum það ekki, hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að það verði engin nýliðun í greininni? Er það ekki ákveðið vandamál sem við þurfum að horfast í augu við, erfiðleikar við að komast inn í sjávarútveginn?