146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að kalla það að bera af mér sakir en það er svona næsti bær við það. Hv. þm. Brynjar Níelsson gerði mér fullhátt undir höfði og ætlaði mér fullstóran hlut, að mér fannst, í ræðu sinni hér áðan og það er miður að hv. þingmaður er farinn úr salnum. Það er ágætt ef menn koma og halda miklar ræður að þeir séu þá viðstaddir umræðuna og geti tekið við andmælum ef þau koma einhver. Það varðar sem sagt það að ég hafi verið sérstakur stuðningsmaður og átt þátt í því að taka upp kvótakerfið. Það er auðvitað sögulega mjög rangt. Það er vissulega rétt að ég var kominn á þing þegar kvótakerfið var sett á í desember 1983 og man enn þá ágætlega þær löngu og hörðu umræður sem þá urðu. Ég var í hópi þeirra sem voru á móti þeirri ráðstöfun eins og hún var útfærð og sérstaklega ósáttur við hvernig farið var með réttindin, að þeim væri öllum úthlutað til eins aðila í greininni, þ.e. útgerðanna, og að t.d. byggðarlögin eða fólk í landi fengi enga hlutdeild í þeim réttindum sem öllum mátti ljóst vera að verið var að leggja grunninn að með því að loka greininni og úthluta síðan aðgangi að miðunum. Væri nú margt öðruvísi umhorfs á Íslandi ef menn hefðu farið aðra leið þarna, samanber það að í upphafi skyldi endinn skoða.

Þá er líka ágætt að minna á það hvernig þessu var troðið í gegnum þingið á endanum rétt fyrir áramótin eftir mikil fundahöld nætur og daga að menn sögðu, þeir sem létu sig hafa það að samþykkja kerfið, ég var ekki í þeim hópi, að þetta væri til bráðabirgða í eitt ár. Margir af þingmönnum þáverandi stjórnarflokka réttlættu stuðning sinn við málið með því, þetta væri bráðabirgðaráðstöfun, neyðarráðstöfun vegna svartrar skýrslu um ástand fiskstofnanna, og þetta mundi ekki standa lengur en í eitt ár. Þingmenn Vestfirðinga, t.d. úr stjórnarflokkunum, sem studdu upptöku kvótakerfisins, sem vildu nú ekki allir kannast mikið við það síðar, réttlættu þátttöku sína í því svona. Framsalið kemur svo til sögunnar löngu síðar.

Það er rétt að ég var í þeim hópi sem greiddi þeim breytingum atkvæði enda sat ég í þeirri ríkisstjórn, en ég var ekki upphafsmaður þess heldur var það þáverandi sjávarútvegsráðherra. Mér finnst nú fulllangt gengið að eigna mér verk Halldórs Ásgrímssonar í þessum efnum, að ég sé sérstakur upphafsmaður þessa. Það var mjög erfið málamiðlun en þá voru líka aðrir tímar uppi í greininni. Þá er rétt að minnast þess t.d. að minni hluti flotans, þ.e. smábátarnir og smærri bátar, var þá í opnu kerfi. Það var ekki búið að loka því með þeim hætti sem síðar varð.

Í þeirri breytingu voru líka samþykktar viðamiklar mótvægisaðgerðir við þeirri breytingu að leyfa framsal á veiðiheimildum innan kerfisins, innan þess lags sem þá var bundið af aflamarkinu. Síðan var ekki vel við það staðið á árunum þar á eftir af því að mönnum var alveg ljóst að þetta mundi hafa í för með sér samþjöppun og tilfærslu innan greinarinnar. Það gæti orðið sársaukafullt fyrir ýmis byggðarlög, þannig að því áttu að fylgja allviðamiklar ráðstafanir og var lagt af stað með þær. Þá koma til sögunnar fyrstu byggðarlegu og félagslegu ráðstafanirnar, að segja má, innan kerfisins. Þær áttu að verða miklu umfangsmeiri en síðan var staðið við að gera.

Þá var staðan vissulega enn þá þannig að það var mikil umframafkastageta í flotanum. Veiðigetan var langt umfram það sem menn töldu óhætt að veiða á þeim árum og flotinn minnkaði í framhaldinu og heilmikil uppstokkun átti sér stað.

Því vildi ég nú koma á framfæri til þess að hafa það í þingtíðindunum alla vega, af því að mér leiðist þegar menn eru að reyna að slá keilur með þessum hætti. Ég tók eftir því í kosningabaráttunni, af því að það vill svo til að ég er einn fárra sem eftir eru í stjórnmálum sem var til staðar á þessum tímum, að mönnum finnst það fyndið og handhægt að gera mig að einum allsherjarsökudólgi í þessu. Það er nú fullvel í lagt þó að mér sé auðvitað löngu ljóst að það eru til menn á Íslandi sem finnst langþægilegast að kenna mér um allt sem miður hefur farið á Íslandi síðastliðin 30 ár og að ég hljóti einhvern veginn með einhverjum hætti að bera ábyrgð á bankahruninu líka og svo framvegis. Það er mjög þægileg svart/hvít heimsmynd fyrir þá sem aldrei horfast í augu við sjálfa sig, eins og svartasta íhaldið gerir ekki, sem kunnugt er.

Það er svo merkilegt með Sjálfstæðisflokkinn hann er auðvitað ekki flokkur, eins og menn hafa löngu áttað sig á, og væri hægt að vitna í fyrrverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson, sem á sennilega frægustu samlíkinguna við ónefnt fyrirbæri í Mið-Ameríku. Hann er miklu meira hagsmunabandalag, en hann er fyrst og fremst kirkja — kirkja þeirra trúarbragða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og geri aldrei mistök — geri aldrei mistök, hann hafi alltaf rétt fyrir sér.

Mér fannst hv. þm. Brynjar Níelsson svolítið mengaður af þessu uppeldi í Sjálfstæðisflokknum þegar hann talaði hér áðan. Af þeim toga er barnaskapur eins og það að eigna kvótakerfinu alla jákvæða hluti sem gerst hafa í sjávarútvegi á Íslandi. Það er auðvitað tómt kjaftæði. Það hefur vissulega stuðlað að vissri þróun, það er rétt, en það er ekki eitt þar á ferð. Hvernig dettur mönnum í hug að heimfæra það upp á kvótakerfið, aflamarkskerfið eða framsalið, að þar hafi orðið framþróun varðandi meðferð afla og gæðamála í íslenskum sjávarútvegi? Jú, jú, það getur átt sinn þátt í því að menn hörfuðu smátt og smátt frá magnhugsun á meðan menn gátu sótt ótakmarkað magn og aukið tekjur sínar með því að veiða bara sem mest. Þá voru tímar í sjávarútvegi þar sem minni áherslan var á gæðin. En það var líka vegna þess að á þeim dögum létu menn bjóða sér matvæli af miklu lakari gæðum en menn gera í dag. Hún var ekki féleg öll skreiðin sem verkuð var á þessum mestu aflaárum þegar menn unnu í húsunum þar sem hægt var, restin fór út á tún, og síðan var hún hengd upp eftir atvikum í alls konar ástandi og seld til Afríku. Síðan eru sem betur fer mjög breyttir tímar og þeir væru hvort sem er mjög breyttir vegna þess að kröfur um gæði matvæla eru auðvitað allt aðrar í dag. Og markaðurinn sjálfur hefði meira og minna stuðlað að slíkri þróun hvort sem er þótt ekkert væri kvótakerfið á Íslandi eða þótt menn stýrðu sókninni með einhverjum öðrum aðferðum.

Þegar menn heimfæra allt þetta, sjálfbærni veiða á Íslandi upp á kvótakerfið, aflamarkskerfið er það auðvitað líka barnalegt vegna þess að það eru til svo margar aðrar aðferðir til þess í sjálfu sér að stýra því hversu mikið menn sækja í fiskstofnana. Menn mega alveg hafa þá trú fyrir mér að aflamarkskerfi sé besta aðferðin til þess, en það er svo fjarri því að það sé eina aðferðin. Enda er það ekki eina aðferðin. Menn horfa alltaf fram hjá því í umræðum um sjávarútveginn að fiskverndaraðgerðirnar eru fjölþættar. Það eru líka reglur um veiðarfæri, möskvastærðir. Það eru landhelgislínur. Það eru hrygningarstopp. Það eru alls konar aðgerðir sem er blandað saman við það hvað mikið magn nákvæmlega má taka úr hverjum stofni sem til samans mynda umgengnisreglurnar um auðlindir.

Ef við viljum nú ræða þetta málefnalega og af einhverju viti skulum við bara hafa hlutina eins og þeir eru. Það er ekki þannig að það sé bara aflamarkskerfi og það leysi málin, hvað þá að allt gott sé því að þakka.

Svo verða líka þeir menn sem svona tala að velta þá upp spurningunni og svara sjálfum sér eða öðrum: Bíddu, á þá ekki aflamarkskerfið líka ókostina sem því hafa fylgt? Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt. Við skulum ekki tala eins og þetta allt saman hafi bara verið svona dásamlega gott og ánægjulegt. Jú, það er rétt, það eru til byggðarlög sem hefur sem betur fer vegnað vel í þessu kerfi, en það eru líka til mörg önnur sem farið hafa hryllilega út úr því.

Af því að hv. þm. Brynjar Níelsson nefndi Þórshöfn fyrir einhverja algjöra tilviljun, þá er það rétt. Mér þykir vænt um mína heimabyggð, Þistilfjörðinn. Þar hefur mönnum gengið að breyttu breytanda bara allvel. En við þekkjum líka hvernig gengið hefur allt í kringum okkur, á Raufarhöfn, á Bakkafirði, Breiðdalsvík, Hrísey, og svo þekkjum við erfiðleikana á Flateyri. Ætla þeir ekkert að kannast við þá, Sjálfstæðismenn, þegar þeir hæla kerfinu? Það er nú ekki þannig að þetta hafi alls staðar verið svona óskaplega gott og dásamlegt.

Satt best að segja hafa það verið að sumu leyti verið einhverjar mestu byggðarlegu, félagslegu og mannlegu hamfarirnar sem gengið hafa yfir Ísland, hvernig kerfið hefur farið með sumar sjávarbyggðir. Það er fullkomlega óréttlætanlegt og óverjanlegt hvernig menn hafa látið það ganga yfir á kostnað þess fólks sem þar bjó. Eða muna menn ekki tímana þegar íbúar á Raufarhöfn þóttust góðir ef þeir gátu afhent lykilinn að ágætis einbýlishúsi og fengið eina milljón fyrir það af því að fótunum var kippt undan tilveru þessara staða og fólkið skilið eftir eignalaust og réttlaust í kerfinu? Og það var látið taka á sig kostnaðinn, hinn félagslega og mannlega kostnað af þessari aðlögun í sjávarútvegi. Það hefði ekki þurft að vera þannig.

Það er ekkert náttúrulögmál að samþjöppunin hefði þurft að verða svona mikil. Að sjálfsögðu ekki. Það er ekkert náttúrulögmál sem segir mönnum að stórrekstur í sjávarútvegi sé endilega hagkvæmari en smárekstur. En kerfið hefur hlúð að honum og smátt og smátt þurrkað upp einyrkja. Það hefur gert það m.a. í gegnum það verð sem aðgangurinn að auðlindinni hefur fengið á sig í höndum þeirra manna sem hann hlotnaðist, gert kynslóðaskipti erfið, sérstaklega fyrir einyrkja þar sem hver kynslóð þyrfti þá að kaupa út aðganginn af þeirri næstu á undan sér o.s.frv. Það er ekki endilega mjög mikið réttlæti í því.

Ef við ætlum nú að fara að tala hérna almennilega um sjávarútveg — sú var nú tíðin að svona umræða, frumvarp um sjávarútvegsmál, tók aldrei minna en tvo sólarhringa hér á Alþingi. Aldrei. Það var oftast um þriggja, fjögurra daga umræða ef sjávarútvegsmál bar á góma yfirleitt. Þetta er kannski örlítið sýnishorn, örlítill vísir að því að hægt sé að tala um sjávarútvegsmál á Íslandi. Þá skulu menn bara ræða hlutina eins og þeir koma fyrir og í heild sinni.

Um þetta frumvarp, sem maður þarf nú kannski að nefna úr því að maður er kominn í ræðustólinn, [Hlátur í þingsal.] vil ég segja að mér finnst það — ég hef sjálfur oft velt upp þeim möguleikum að menn meðhöndli aflaaukningu í tegund með öðrum hætti en það sem fyrir er, sérstaklega þegar svo er komið, eins og í þorskstofninum núna sem betur fer, að við erum farin að úthluta árlega veiðiheimildum sem eru komin langt upp fyrir tíu ára jafnstöðuafla. Þegar hv. þm. Brynjar Níelsson segir: Halda menn að það sé bara hægt að taka réttinn af þeim sem hafa hann fyrir og láta einhvern annan fá hann þó að það sé á uppboði? Nei, það er ekki hægt, segir Brynjar, dómstólar mundu stoppa það. Þar er ég ósammála lögmanninum. Þar fer hann með fleipur. (Gripið fram í.) Það er alveg hafið yfir vafa að stjórnvöld geta sett málefnalegar reglur um aðganginn að þessari sameiginlegu auðlind. Þetta er ekki eignarréttur, hv. þingmaður og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, [Hlátur þingsal.] eins og mátti ráða af orðunum hér áðan. Það er rétt að þær reglur og þær breytingar þurfa að eiga sér eðlilega aðlögun og þær þurfa að vera málefnalegar. Menn geta ekki gert hvað sem er. En það er fráleitt að halda því fram að núverandi handhafar veiðiheimilda geti gert einhverjar sérstakar kröfur til þess að þeir fái sjálfvirkt aflaaukningu í hverri tegund í samræmi við hlutdeild sína þegar t.d. svo háttar til að hún er komin langt yfir jafnstöðuafla síðastliðinna 10, 15 ára. Þá lít ég svo á, það er mín lögfræði, að stjórnvöld geti sett hvaða málefnalegar reglur sem er um meðferð þess viðbótarafla. Þar er ekki verið að brjóta meðalhóf gagnvart þeim. (Gripið fram í.) Þar er ekki verið að ganga of harkalega fram í breytingum í kerfi og hæstaréttardómar staðfesta það.

Því sem betur fer hefur Hæstiréttur að breyttu breytanda almennt tekið afstöðu með því að þjóðin eigi auðlindina og stutt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, sem að vísu vantar enn að komi inn í stjórnarskrána.

Ég ætla að vona að ekki sé að taka sig upp aftur hjá erkiíhaldinu tilraunirnar til þess að reyna að fara að tala eignarréttinn inn í þetta aftur. Eða eru menn kannski orðnir svo hrokafullir aftur af því að þeir eru komnir með þennan gríðarlega meiri hluta á þingi, [Hlátur í þingsal.] fengu svona glæsilega kosningu og eru með upp undir helming þjóðarinnar á bak við sig í þessari meirihlutastjórn að nú telji þeir sig geta gert hvað sem er? Eiga þeir núna Ísland aftur, kapparnir, eins og hérna fyrir 2007? Nei, við skulum vona að svo sé ekki.

Auðvitað væri mjög vel hægt að ákveða það varðandi ráðstöfun viðbótarafla af þessu tagi, að ef við búumst við því að kvótinn verði eitthvað aukinn á næsta ári, sem er að vísu því miður ekki víst að verði mikið, þá verði ráðstöfun viðbótarafla með öðrum hætti og t.d. bara meðan það ástand varir.

Ég lét reikna það út á sínum tíma hvað þorskkvótinn þyrfti að aukast í aftur til þess að allar skerðingar væru sannarlega örugglega komnar til baka og að teknu tilliti þá til þess sem tekið er frá í félagslegar byggðarlegar aðgerðir, 5,3% þau sem nú eru, þar reiknaðist mönnum til að væru svona einhvers staðar á bilinu 220–230 þús. tonn. Þar fyrir ofan lít ég svo á að við getum vel réttlætt að fara öðruvísi með aflann. En ég er ekki endilega viss um, og það væri ekki mitt fyrsta boð, að bjóða það upp á frekar óskýrum forsendum. Ég mundi nota það til að auka byggðafestu í kerfinu, til að efla strandveiðar og til að þróa meiri sjálfbærni af því tagi. Það væri fínt að taka nokkur þúsund tonn af þorskkvótaaukningunni, ef hún verður einhver á næsta fiskveiðiári, og fara einhvern veginn þannig með það.

Þetta var nú mitt stutta innlegg, að bera [Hlátur í þingsal.] af mér sakir, frú forseti.