146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að finna öllum aðferðum eitthvað til foráttu í þessum efnum. Þeir sem ekki vilja neina gjaldtöku einblína auðvitað á þá hlið mála, vandamálin við að leggja á veiðigjöld, vandamálin við að fanga auðlindarentuna o.s.frv. En allt er þetta nú gert og allt er þetta leyst og allt er þetta tæknilega mögulegt. Sums staðar eru menn býsna afdráttarlausir í þessu með grimmri brúttóskattlagningu eins og í olíunni. Þá taka menn bara stóran hluta teknanna og gera hann upptækan, eru ekkert að spá í afkomu hvers og eins. (ÓBK: Viltu það?)Nei, hér væri hægt að fara blandaða leið. Það er það sem menn gera. Það geta verið rök fyrir því að þeim mun betur sem þú getur brotið þetta niður á nýtingu hverrar tegundar fyrir sig og jafnvel að einhverju leyti eftir stærðarflokkum fyrirtækja þá nálgist maður þetta betur og betur. En það að fara niður í einstök fyrirtæki hefur líka stórkostlega galla. Það má segja að þá sé maður að verðlauna skussana ef þetta er bara tekið og lesið út úr rekstri þeirra. (Forseti hringir.) Þá borga þeir ekki neitt sem reka sín fyrirtæki illa, en hinir mjög mikið sem reka sín fyrirtæki vel. Einhvers staðar þarna á milli þarf þetta að vera. Sama vandamál (Forseti hringir.) kemur upp á hinni hliðinni varðandi hugmyndir um að skattleggja bara hagnaðinn, (Forseti hringir.) þá gullhúða menn handriðin og komast hjá greiðslunum með slíkum aðferðum.