146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

sala ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.

88. mál
[17:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er nú sammála ýmsu sem kom fram í síðustu ræðu og get vísað til þess. Mér finnst það í sjálfu sér ágætt að hér hafa þrír ungir gleðipinnar í Sjálfstæðisflokknum sameinast um tillögu, hv. þm. Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson. Þeir eru þá alveg örugglega ekki í fýlufélaginu. Og maður gæti látið sér það í léttu rúmi liggja, en auðvitað er maður tortrygginn. Það er þarna dálítill frjálshyggjuþefur á ferðum. Ég held að það liggi meira á bak við en látið er í veðri vaka á yfirborðinu. Auðvitað er þetta til þess að halda einkavæðingartrúboðinu á dagskrá. Hér eru allar eignir ríkisins undir. Allar. Það á að verðmeta allt. Örugglega Hóladómkirkju því að þeir halda að ríkið eigi hana. Og allar jarðir ríkisins, allar fasteignir, allt húsnæði ríkisins. Það á allt að vera undir þótt aðallega sé svo talað um það þegar er saumað að mönnum, að þetta geti snúist um eignarhlut í bönkum. Já, við skulum endilega ræða það. Er ástæða til að ríkið eigi alla þessa banka?

Hér er auðvitað blandað saman og settir í einn graut svo eðlisólíkir hlutir að það er varla hægt að taka það alvarlega. Það er svoleiðis gríðarlegur munur á eignarhaldi ríkisins í kannski öðrum eða þriðja bankanum í landinu og svo í grundvallarinnviðafyrirtæki eins og Landsvirkjun að það hálfa væri nóg eða í bráðnauðsynlegu húsnæði til þess að veita kjarnaþjónustu í landinu. Þessu á ekki að blanda saman.

Tökum bara Landsvirkjun sem dæmi. Ætli eigið fé hennar sé ekki um 250 milljarðar eða svo í dag. Hún er reyndar lágt metin í bókum ríkisins þannig að einhver söluhagnaður kæmi ef hún færi út. Fyrirtækið sjálft boðar núna að innan tveggja ára eða svo, eftir tvö ár, verði staða þess orðin sú sem það hefur keppt að miðað við skuldaframlegðarhlutföll. Þá geti hún farið að borga 10–20 milljarða á ári í arð. Væri skynsamlegt að selja fyrirtæki á svona tvöfalt eigið fé eins og sumir tala um? Menn hafa verið að skrifa um það. Já, það væri fínt að fá 400 milljarða fyrir Landsvirkjun, menn munaði um það. Já, það væri þá um 20 ára arður sem fyrirtækið gæti borgað. Með öðrum orðum: Með því að selja fyrirtækið ekki og eiga það og láta það borga okkur arðinn ættum við það á 20 ára fresti upp á nýtt. Skuldlaust.

En í reynd er dæmið ekki einu sinni svona vegna þess að í Landsvirkjun eru náttúrlega fólgin gríðarleg dulin verðmæti sem fyrirtækið hefur fengið frá ríkinu, sumpart endurgjaldslaust. Virkjunarréttindi sem ríkið lét inn í fyrirtækið. Og enn sem komið er nýtir Landsvirkjun fallréttinn í þjóðlendum án þess að borga krónu fyrir. Erum við tilbúin til að láta þetta allt saman fara með? Öll virkjunarréttindi Landsvirkjunar, allan aðgang hennar að auðlindunum? Nei, ætli það nú. Eigum við þá að vera að blanda því saman við spurninguna um hvort ríkið eigi kannski selja eitthvað af eignarhlut sínum í Arion banka eða Íslandsbanka, svo dæmi sé tekið. Ég held ekki.

Jarðir. Á það að vera sjálfgefið að ríkið selji frá sér jarðnæði sitt? Það á kannski 500–600 jarðir enn þá í lögbýli sem eru að vísu kannski að stórum hluta í eyði. Er það skynsamlegt, alla vega á meðan jarðalög eru þannig að ríkið á ekki einu sinni forkaupsrétt þegar land er selt og ekki heldur sveitarfélögin? Ríkið á forkaupsrétt í þeim einu tilvikum sem um er að ræða friðlýst svæði. Algerlega fráleitt að mínu mati. Og það á þeim tímum þegar ásókn auðmanna, þar á meðal erlendra, í jarðnæði er að stóraukast á nýjan leik. Ætlum við að horfa upp á það og að ríkið stuðli að því að þjóðin verði í meira og meira mæli leiguliði í eigin landi? Nei, ætli það.

Að mínu mati á að snúa þessu við. Ríkið á að hætta að selja jarðir. Það á að setja fortakslausan forkaupsrétt ríkis og sveitarfélaga inn í lög þannig að samfélagið geti alltaf velt því fyrir sér, ef jarðnæði er selt: Er það betur komið í félagslegri eigu? Af hverju ættu ekki sveitarfélög að hafa forkaupsrétt á hlunnindajörðum þegar erlendir auðkýfingar koma og reyna að kaupa þær upp? Og verja þannig arðinn af hlunnindunum í samfélaginu? En hann er ekki til staðar í dag. Jarðalögin voru eyðilögð á sínum tíma.

Menn þurfa að líka að svara samhengi hlutanna þegar þeir velta því fyrir sér: Á ríkið að halda á einhverjum tilteknum eignum sínum eða ekki? Og svo gæti ég haldið ræður um húsnæðið og galskapinn í Viðskiptaráði, hrokann sem er kominn í þetta lið aftur þegar það tekur allar fasteignir ríkisins og telur að það eigi að selja þær meira og minna, gera ríkið að einum allsherjarleiguliða á fasteignamarkaðnum. Já, eins og hann er nú félegur í dag. Hvað kom út þegar Alþingi lét reikna út hvort það væri hagstætt að ganga til samninga við einn aðila um langtímaleigu? Sá möguleiki var uppi á borðum um tíma að kannski gæti Alþingi leyst sín húsnæðismál hérna í Kvosinni þannig að í staðinn fyrir að leigja af fjölmörgum aðilum misgott húsnæði tvist og bast að til sögunnar kæmi einn stór leigusali sem tæki verkefnið alveg að sér. Menn vissu nokkurn veginn hvar leiguverðið myndi liggja í endurbættu húsnæði. Niðurstaðan varð sú að mati fjármálaráðuneytisins, Framkvæmdasýslunnar og Alþingis sjálfs og allra sem skoðuðu málið að það væri ekki glóra í því fyrir Alþingi að leigja. Og að Alþingi myndi eiga sitt eigið húsnæði hérna á reitnum skuldlaust á innan við 25 árum með því að byggja það sjálft, borið saman við að borga leiguna á jafn löngum tíma. Er þá einhver efnahagsleg skynsemi í því? Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, stundum finnst manni eins og öll heilbrigð, mannleg skynsemi sé látin lönd og leið þegar trúboðið veður áfram. Það bara skal einhvern veginn vera þannig að það sé betra að ríkið eigi ekki og ríkið geri ekki. Og þótt það stangist á við dóm reynslunnar, stangist á við öll rök, er haldið áfram.

Ég verð líka að segja alveg eins og er að þegar t.d. Viðskiptaráð, sem er nú kannski ekki sanngjarnt að skamma tillögumenn fyrir en þó er skylt skeggið hökunni þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Viðskiptaráð eiga í hlut, kemur með sínar tillögur núna í fasteignamálunum, ofan í reynsluna af Fasteign ehf. sem hv. þingmaður nefndi, ofan í staðreyndir mála á fasteignamarkaði í dag, þá er manni öllum lokið. Hvað gengur mönnum til? Trúa menn virkilega sjálfir þessari þvælu? Eða skiptir það bara ekki máli? Trúboðið blífur.

Ég gæti svo tekið undir með öðrum ræðumanni sem hér varaði svolítið við reynslunni af því að hafa einkavæðingu ríkiseigna í höndum Sjálfstæðisflokksins. Eigum við að fara yfir það hvernig gekk með Sementsverksmiðjuna? Hvernig gekk að fá hana borgaða þegar hún var einkavædd? Nei, hún var aldrei borguð. Ríkið fékk aldrei greiðsluna. Eigum við að fara yfir SR, Síldarverksmiðjur ríkisins? Hvernig gekk það? Sem voru seldar, einkavæddar fyrir áramót, það lá svo mikið á að bókfæra þær á því ári. Hvað gerðu kaupendurnir? Þeir borguðu sér einn þriðja af kaupverðinu í arð á útmánuðum. Hvernig var með Áburðarverksmiðjuna sem var seld á 1.100 milljónir? Jú, menn gleymdu því að það voru 760 milljónir í birgðum af áburði. Það var frekar þægilegt að fá að kaupa hana á 1.100 milljónir og borga hana svo bara með áburðarsölunni sem var í birgðum þegar hún var keypt. Þá áttu menn verksmiðjuna og áttu landið í Gufunesi.

Eigum við að fara yfir Landssímann? Hvernig gekk með Landssímann? Það var reynt að einkavæða hann 2002 ef ég man rétt, eða rétt upp úr aldamótunum. En það mistókst, sem betur fer, í fyrri tilraun. Ríkið átti Landssímann og grunnnetið og allt saman í ein fjögur ár í viðbót. Og hvað gerðist á þeim árum? Landssíminn borgaði ríkinu á milli 20 og 30 milljarða í arð eða þriðjung til hátt í helming af söluverðinu sem svo fékkst fyrir hann fjórum, fimm árum síðar. Var það þá gáfuleg ráðstöfun að selja Landssímann? Hvað varð um allt sem átti að gera og byggja fyrir hann? Það fór fyrir lítið. Það óhappaverk að einkavæða grunnnet fjarskiptanna í landinu eru einhver hroðalegustu mistök sem menn hafa lengi gert.

Að einu leyti til má segja að tillagan nálgist hluti þar sem ég get verið sammála þeirri hugsun að gott sé að fara yfir það hvort í einhverjum tilvikum sé skynsamlegt að breyta um form á eign ríkisins úr einu í annað. Það er ég alveg tilbúinn til að skoða. En ég vil ekki slá utan um það þeirri umgjörð að allt sé undir. Það tortryggi ég. En ef við værum bara að tala um að skoða eignarhluti t.d. í bönkum, segjum að það væri samstaða um að ríkið ætlaði að eiga Landsbankann, einn stóran kjölfestubanka, þá væri ég alveg til í að ræða það. Já. Gæti verið skynsamlegt að breyta um form á eign ríkisins, færa hana úr Íslandsbanka yfir í vegi? Já, það er alveg málefnalegt. Við þurfum ekki að vera ósammála um allt þótt við séum ósammála um sumt í þessu.

Varðandi síðan niðurgreiðslu skulda er rétt að hafa í huga að menn selja bara sömu eignina einu sinni. Það hefur í sjálfu sér ekki áhrif á hreina skuldastöðu ríkisins því að eignin fer á móti skuldinni sem er greidd niður. Og það kemur ekkert út úr því í sjálfu sér gagnvart hreinni skuldastöðu nema að arðurinn sem fékkst (Forseti hringir.) af eigninni sé minni en vextirnir sem menn borga vegna hinnar bókfærðu skuldar.

Að vísu var einu sinni, frú forseti, maður á Ísafirði sem gat selt sama hundinn oft. (Forseti hringir.) En það var af því að honum hafði verið kennt að stökkva frá borði þegar hann var seldur í erlend farskip (Forseti hringir.) og hann synti alltaf í land aftur og var svo seldur aftur og aftur. (Forseti hringir.) En það er yfirleitt ekki hægt þegar ríkið á í hlut með eignir sem ekki geta synt.