146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

um fundarstjórn.

[15:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vildi nefna undir þessum lið að dagskrá þingfundar á morgun er ekki komin á vefinn. Við vitum að þar á ein sérstök umræða að vera á dagskrá en samkvæmt mínum upplýsingum vitum við ekki enn hvaða umræða það er. Ég hvet því virðulegan forseta, forsætisráðherra og þingflokka til að taka betur á þessu fúski í dagskrármálum. Við þurfum að vita betur hvað við erum að fara að tala um til framtíðar.

Á þeim nótum langar mig að biðja virðulegan forseta að taka tillit til beiðni minnar um að koma á sérstökum umræðum um skil forsætisráðherra á skýrslu aflandsfélaga til þjóðarinnar. Innihald skýrslunnar er eitt mál sem búið er að taka sérstaka umræðu um, en framlagning þeirrar skýrslu er annað mál, mál þar sem forsætisráðherra leyndi upplýsingum og reyndi að ljúga um það. Við þurfum að tala um það.