146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

framlagning tveggja skýrslna.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég er ekki í neinum ágreiningi við hv. þingmann um að það sé langbest að skýrslum sé svarað hratt og örugglega til þingsins, t.d. fyrirspurn frá Pétri H. Blöndal frá þarsíðasta kjörtímabili sem hann þurfti í þrígang að leggja fyrir ríkisstjórnina en fékk aldrei svar. Í þrígang kom sama fyrirspurnin fyrir þingið. Aldrei fékk hann svar frá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, aldrei, þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í. Ég er meira en tilbúinn til að taka undir með hv. þingmanni um að það fari best á því að stjórnsýslan sé þannig sterk, vel mönnuð og kraftmikil að fyrirspurnum sé svarað sem best og hraðast.

Varðandi leiðréttingarskýrsluna þá tók hún of langan tíma. En gleymum því ekki að henni var skilað til þingsins ólíkt því sem átti við um skýrslubeiðni þá sem ég nefndi frá Pétri H. Blöndal sem aldrei barst. Og það sama gildir um aflandsskýrsluna. Henni var skilað til þingsins. Upplýsingum var lofað, upplýsingar voru veittar. Það er það sem gerðist í þessum málum.