146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

sjómannadeilan.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Við í ríkisstjórninni höfum viljað hafa það alveg á hreinu að við ætlum ekki að leysa samningsaðila undan þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Við bíðum ekki á hliðarlínunni eftir því að fá eitthvert hlutverk í þessari deilu. Það er ekki þannig að það standi upp á ríkisstjórnina einhver ákveðin krafa, en við metum hins vegar stöðuna mjög alvarlega. Það sem mér hefur fundist skorta á héðan úr þinginu er að við tækjum þessa umræðu á nokkuð breiðari grundvelli og spyrðum okkur að því: Er ekki eitthvað að í íslenska vinnumarkaðsmódelinu þegar ein okkar mikilvægasta auðlind liggur ónýtt svo mánuðum skiptir, eins og stefnir í núna? Eða þegar okkar viðkvæmustu stofnanir, eins og skurðstofur á sjúkrahúsum, eru teknar inn í kjaradeilur og sjúklingar þar með nánast orðnir bein fórnarlömb kjaradeilu? Er það ekki mikið umhugsunarefni fyrir Alþingi að vinnumarkaðsmódelið okkar skuli bjóða því heim að þetta geti gerst (Forseti hringir.) og ríkissáttasemjari hafi engin tæki, engin tól megnugri en bara að koma með einhverja miðlunartillögu til að höggva á hnútinn? Við þurfum að horfa til allra átta í þessu, ekki bara til þeirra sem eru beinir þátttakendur í deilunni.