146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

málefni innanlandsflugvalla.

[15:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Fyrst um Reykjavíkurflugvöll. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs í landinu. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að sú starfsemi verði flutt. Meðan slík ákvörðun hefur ekki verið tekin verður miðstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Hvað varðar hina löngu framtíð í þeim efnum verður bara að koma í ljós. Það er mörgum spurningum þar ósvarað varðandi bæði staðsetningar og kostnað við byggingu á mögulega nýjum velli sem gæti hýst þessa þjónustu. Ég hef því lagt á það mikla áherslu og mun leggja á það áherslu í viðræðum mínum við yfirvöld í borginni að við getum hafið sem fyrst framkvæmdir við uppbyggingu á þjónustumiðstöð fyrir starfsmenn og farþega á Reykjavíkurflugvelli.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að það er til mikils að vinna að dreifa ferðamönnum okkar, þeim sem hingað sækja, betur út um land. Eitt af því er hvort við getum með einhverjum ráðum opnað fyrir og greitt fyrir því að beint áætlunarflug verði m.a. á þá flugvelli sem hv. þingmaður nefndi, á Akureyri og Egilsstaði. Það hafa verið settar í gang aðgerðir til að reyna að greiða því leið. Ég held að það sé kallað flugþróunarsjóður, sem nú hefur reyndar verið breytt reglum fyrir þannig að hann heimilar að taka ekki eingöngu til beins flugs á þessa staði heldur einnig til flugs sem hefði millilendingu í Keflavík. Flugfélag Íslands mun hefja í mars beint flug frá Keflavík á þessa staði. Ég er á því að við getum gert svo langt sem geta okkar nær, stjórnvalda, í að greiða þessu leið en það verði þó fyrst og fremst (Forseti hringir.) að vera markaðurinn sem svarar því hver, hvernig og hvenær þetta mun geta átt sér stað í öflugri mæli en við verðum vitni að í dag.