146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

málefni innanlandsflugvalla.

[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hvort það verði skoðað að opna svokallaða neyðarbraut aftur á Reykjavíkurflugvelli er vissulega mál sem ég er að líta til. Í þeirri skýrslu sem oft er vitnað til, Rögnuskýrslunnar svokölluðu, um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar eða innanlandsflugsins, var ekki tekið tillit til þess öryggishlutverks sem Reykjavíkurflugvöllur hefur að gegna gagnvart landsmönnum og þeirrar skyldu sem ríkisvaldið ber gagnvart þegnunum í landinu. Ég hef því ráðið tímabundið starfsmann í samgönguráðuneytið sem er sérstaklega að fara yfir þetta öryggishlutverk vallarins og þá í breiðum skilningi, ekki eingöngu gagnvart sjúkraflugi heldur bara almennt, öryggishlutverki og þá almannavarnahlutverki vallarins líka. Sú vinna ætti að liggja fyrir fyrir vorið og mun gefa okkur frekari upplýsingar í þeim efnum.

Nýlega hefur verið vakin athygli mín á þessum mikla kostnaðarmun sem er á eldsneyti innanlands, (Forseti hringir.) vegna kostnaðar við flutning á því norður, og mér finnst það mjög athyglisvert. Ég hef rætt það sérstaklega á mínum vettvangi í ráðuneytinu, að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Einnig er ég búinn að setja í gang vinnu (Forseti hringir.) til að skoða frekari jöfnun, eða svona jöfnun íbúa á landsbyggðinni til að geta nýtt sér í auknum mæli innanlandsflug. Þar hefur m.a. verið talað um svokallaða skoska leið sem ég kann ekki að greina (Forseti hringir.) mjög vel frá ennþá en ég hef óskað sérstaklega eftir að verði skoðuð.