146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[15:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga við mig orðastað um opinber fjármál enda er umræðan mikilvæg og hefur áhrif bæði hjá löggjafar- og framkvæmdarvaldinu þar sem allt ferlið er nú í mikilvægri mótun. Því skiptir öllu máli að afar vel takist til þannig að tafir verði ekki á og sá árangur sem lögin stefndu að náist. Geri ég ráð fyrir að ráðherrann sé mér sammála um það. Best hefði verið að taka umræður um stefnuna, áætlunina og fjárlögin í hvort í sínu lagi en að hafa þær hverja á fætur annarri til að ná almennilega dýpt í umræðuna því að þetta eru jú allt hlutar af einni heild.

Ég hef efasemdir um að öllum sé ljóst hvað klárast í hverjum hluta umræðunnar og urðum við í fjárlaganefnd vör við það við umræðu um fjárlögin nú fyrir jólin þegar búið var að læsa vel ýmsum þykkum hurðum og ætluðu bæði þingmenn og hagsmunahópar að hefja hefðbundna fjárlagaumræðu. Umræðunni var tæknilega lokið eins og ætlunin var að hafa hana. Í ljósi þeirrar reynslu tel ég afar hæpið að við getum samþykkt stefnu án þess að hafa hugmynd um hvernig drögin eru um dreifingu fjármuna í fjármálaáætluninni og svo síðar í fjárlögum og fylgiriti. Ég tel að við þurfum að ræða það betur saman.

Mín upplifun er enn sú að ekki séu allir með á nótunum hvað varðar verkferlið, hvorki innan þings né utan. Ég hef miklar áhyggjur af þeim afar litla tíma sem fjárlaganefnd hefur til umráða ef horft er á þau verkefni sem nefndinni eru falin lögum samkvæmt og þá gesti sem hún telur sig þurfa að hitta.

Ég vitna til umræðunnar á Alþingi um fjármálastefnu, áætlun og síðan fjárlagaumræðunnar. Þar er það sama upp á teningnum Ég sé ekki hvernig þingið á að geta rætt á örstuttum tíma um verkefni sem stærstur hluti Stjórnarráðsins og stofnana þess ræðir og vinnur að allt árið. Fyrir mér snýr málið í grundvallaratriðum að vönduðum undirbúningi fyrir fjárlagagerðina og betri áætlanagerð, auknum aga og meiri samþættingu opinberra fjármála. Til þess vantar þingið stuðning.

Virðulegi forseti. Mig fýsir að vita hvort fjármálaráðherra telji að framsetningin á fjármálastefnunni leiði til þeirrar faglegu umræðu því að megináherslan í fjármálastefnunni er heildarafkoma og skuldir, en helstu lykiltölur eru ekki birtar, t.d. hver landsframleiðslan verður í milljörðum króna. Sú tala er ekki gefin upp í spá Hagstofunnar og öll framsetning byggir á hlutföllum en ekki jafnframt á tölum. Þar sem fjármálastefna er bæði ætluð sérfræðingum og almennum borgurum spyr ég fjármálaráðherra hvort hann telji ekki æskilegt að stefnan verði sett upp samkvæmt báðum aðferðum, bæði út frá gagnsæi og út frá því að auðvelda ólíkum hópum að meta stefnuna. Áhugavert er líka að vita hvort fyrir liggur að hlutfallsstærð ríkissjóðs sé sú hagkvæmasta og ef svo er hvernig hún er fundin.

Ríkisstjórnin setti útgjaldareglu sem felur í sér að heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu. Mig langar að vita hvernig sú viðmiðun er fundin út.

Það vantar líka að fram komi hvernig mælikvarðar og samanburður hlutfallstalna við rauntölur koma út í samanburði við síðustu fjármálaáætlun. Uppgjör Hagstofunnar á þjóðarframleiðslunni er fram eftir ári bráðabirgðamat og ríkisreikningur mun ekki liggja fyrir fyrr en í lok júní þegar þingið er komið í sumarleyfi. Telur ráðherrann ekki að upplýsingar um bráðabirgðamat á mælikvörðum fyrri fjármálastefnu og skýringar á frávikum þurfi að liggja fyrir þegar við fjöllum um nýja fjármálastefnu?

Hversu gagnleg er aðferðafræðin og áherslan á gagnsæi og upplýsta umræðu ef niðurstöður hennar geta dregist langt fram eftir árinu? Þurfum við ekki töluleg markmið sem eru mælanleg strax?

Við hrunið kom fram hversu mikil áhrif fjárfestingar og viðhald geta haft á ríkisfjármálin. Sala á bönkum og ríkiseignum hefur mikil áhrif, en í stefnunni er ekki getið um helstu eignir sem á að selja þó svo að fyrir liggi með hvaða hætti söluandvirðinu skuli ráðstafað. Telur fjármálaráðherra þennan hluta framlagðrar stefnumörkunar nógu skýran í fjármálastefnunni? Færi ekki betur á því að birta hana líka?

Þar sem tíminn er mjög stuttur ætla ég að venda mínu kvæði í kross og spyrja mjög mikilvægrar spurningar. Hvernig ráðherrann sér fyrir sér aðkomu smærri aðila sem sótt hafa fram til þessa beint til fjárlaganefndar eftir stuðningi þegar kemur að fjárlagavinnunni? Það er ekkert launungarmál að ráðherrar fá til sín verulega auknar heimildir með nýju lögunum til að stýra útgjöldum innan sinna málaflokka. Eitt af því sem við þingmenn stöndum frammi fyrir er hversu miklu valdi við afsölum. Þingmenn eru þó kannski meira með áætlanagerðina eða skoða heildarmyndina, en minna í því að standa í afgreiðslu á ákvörðunum og einstaka fjárveitingum sem margir, sérstaklega smærri aðilar, hafa nýtt sér fram til þessa. Við það eru bæði kostir og gallar, en það er vissulega eftirspurn eftir því að þingmenn hafi góða yfirsýn yfir það hvernig fjármunir skiptast bæði á milli einstakra stofnana og liða, en til þess þarf að styrkja þingið verulega.

Mér finnst því mikilvægt að við veltum því upp hvernig við sjáum fyrir okkur meðferð þingsins við fjárlagagerðina í heild sinni, m.a. þar sem fylgirit með niðurbroti fjárveitinga er ekki lögskýringargagn og stefnan markar rammann sem aftur markar áætlunina sem endar svo í fylgiriti með fjárlögum. Eins og ég sagði áðan er tími nefnda afar takmarkaður til að vinna þetta af kostgæfni.