146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Umræða um framkvæmd laga um opinber fjármál, þetta er það sem við ræðum hérna, þetta er stórt mál og mjög mikilvægt. Í umræðunni hingað til hefur samt mjög mikilvægt atriði laganna ekki fengið athygli sem varðar virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda, eins og fjallað er um í lögum um opinber fjármál.

Hver vaktar þá sem vakta? er gamalt orðatiltæki sem er að finna í ýmsum tungumálum. Samkvæmt lögum um opinber fjármál er það þingið, fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þingmenn. Það er okkar helsta ábyrgð að sjá um eftirlit, að vakta og sjá til þess að vel sé farið með almannafé. Til þess að geta staðið vaktina verðum við að vera laus við hagsmunatengsl. Við erum ekki hæf til þess að hafa eftirlit með okkur sjálfum. Það er ástæða fyrir því að fram kemur í siðareglum þingmanna, með leyfi forseta:

Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra og annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Og þingmenn skulu ekki nota aðstöðu sína sem alþingismenn til þess að vinna að eigin hagsmunum eða hagsmunum annars aðila þannig að það samrýmist ekki siðareglum þessum.

Til þess að geta stundað virkt eftirlit getum við þingmenn einungis verið hlutdrægir gagnvart almannahagsmunum. Til þess að geta stundað virkt eftirlit þurfum við að fá upplýsingar sem fást einungis ef við vinnum eftir þeirri meginreglu að vera gagnsæ.

Markmið laga um opinber fjármál er að koma í veg fyrir opinbera spillingu. Á mörgum kjörtímabilum hingað til höfum við séð hið svokallaða kjördæmapot þar sem verkefni koma til einstaks þingmanns eða frá einstökum þingmönnum sem eru svo heppnir að fá að vera í nefnd og eru í aðstöðu til þess að koma málum að á meðan aðrir eru það ekki.

Það er eitt sem við þurfum að leggja áherslu á að breyta. Lög um opinber fjármál taka sérstakt tillit til þess að við erum í eftirlitshlutverki en ekki (Forseti hringir.) lengur að deila út peningum. Við sinnum eftirliti.