146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar allt kemur til alls snýst þetta mál um ábyrga notkun á almannafé. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði okkur að hætta að tala um einstök mál. Það er rétt að ákveðnu leyti. Ferli málanna er öðruvísi í nýjum lögum þar sem ráðuneytið kemur til Alþingis og útskýrir verkefnin sem það ætlar að ráðast í, segir til um kostnað. Nefndin tekur ákvarðanir um heildarútgjöld til þess málefnasviðs með tilliti til verkefnastöðu. Þegar verkefnin fara í framkvæmd þurfum við síðan að fá upplýsingar um það hvernig peningunum sem við samþykktum að nýta í þessi verkefni er varið, hvort þeim er varið á ábyrgan hátt eða ekki. Til þess þurfum við gögn, statt og stöðugt, aftur og aftur. Það er rosalegt vald í eftirliti.

Það eru aftur á móti hagsmunatengsl á milli þess að við útdeilum peningunum sjálf og reynum síðan að hafa eftirlit með meðferð þeirra peninga. Þá höfum við eftirlit með okkur sjálfum og við getum það ekki. Það er hagsmunaárekstur.

Ég ætla aðeins að gerast sjálfhverfur og vitna í stefnu Pírata í efnahagsmálum:

„Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.“

Þetta rímar mjög vel við stefnu og markmið með lögum um opinber fjármál. Við þurfum að horfa á heildarmyndina. Við getum ekki fest okkur í einstaka málum. Við verðum að vera ábyrg. Það er eina leiðin til þess að við getum sinnt eftirlitshlutverkinu eða því sem kemur á móti, (Forseti hringir.) ábyrgðinni, að staðið sé undir henni. Við getum dregið fólk til ábyrgðar ef það misnotar almannafé.