146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér ræðum við eins og komið hefur fram mjög stórt og mikilvægt mál, sem er raunverulega mótun á hvernig við framkvæmum ríkisfjármálin, hvernig við komum fram við að móta nýtt verklag í ríkisfjármálum, er kannski réttara að orða það, undir þessum málefnum; fjármálastefna og fjármálaáætlun. Kannski voru fyrstu skrefin í þessa átt að einhverju leyti tekin á vegum sveitarfélaganna fyrir nokkrum árum þegar menn tóku skuldareglur upp. Við erum kannski farin að setja ákveðin viðmið með svipuðum hætti inn í ríkisreksturinn til að átta okkur á heildarmyndinni.

Allt snýst þetta kannski um agaðri hagstjórn á Íslandi, að við ætlum að reyna að skapa betri skilyrði fyrir agaðri hagstjórn. Það er þannig í hinu sögulega samhengi að frá lýðveldisstofnun höfum við aldrei náð að lenda hagsveiflunni vel. Það er kannski stóra verkefnið með nýrri fjármálastefnu og fjármálaáætlun, þessu nýja verklagi sem við erum að skapa núna.

Allt er þetta í mótun. Við eigum sjálfsagt eftir að ræða hér á næstu árum um prósentur, skuldsetningu af vergri landsframleiðslu og aðra þætti. Ég beini því kannski til hæstv. fjármálaráðherra með þessa prósentu sem kemur fram í máli málshefjanda, þessi 41,5%. Það var útskýrt, en kannski væri réttara að tala um að þetta væru 39–41,5%, eða hvað sem væri, bara eftir hagsveiflunni. Þetta snýst jú allt um sveiflujöfnun, allt þetta mál, eins og kemur klárlega fram í fjármálastefnunni, þ.e. um hvað málið snýst. Það er það sem við erum að leitast við, að ríkið, sveitarfélögin, opinberir aðilar og hreinlega heimilin í landinu förum að stunda agaðri hagstjórn með sveiflujöfnun til að reyna að lenda sveiflunum betur en við höfum gert hingað til.