146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugavert hverjir það eru sem sýna mestan áhuga á þessum umræðum, það erum við hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson og hinar hagsýnu húsmæður sem eru í stórum hópum hér inni. Það er þannig að það skiptir afar miklu máli að tala um þetta. Ég sé að það fjölgaði í þingsalnum (Gripið fram í: … í hliðarsal.) um leið og ég mælti svo. Þetta er líklegast mikilvægasta málefni kjörtímabilsins. Þarna erum við að marka stefnuna, marka rammann, og vel að merkja, þegar búið verður að marka þann ramma er þetta orðið stefna Alþingis og við munum haga okkur í samræmi við hana.

Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir hvatningu um að standa í lappirnar. Ég mun svo sannarlega reyna að gera það.

Ég segi við hv. þm. Eygló Harðardóttur að þetta eru vissulega einkunnarorð stjórnarinnar og þau koma glöggt fram í þessari stefnu, þ.e. jafnvægi og framsýni. Þarna horfum við fram til fimm ára og erum með mikinn stöðugleika sem meginmarkmið í fjármálastefnunni. Það gat ekki komið skýrar til skila í stefnunni.

Ég er ósammála því að þetta þurfi að vera eitthvað þurr umræða. Mér finnst hún afar skemmtileg. Ég er reyndar aðeins öðruvísi en fólk er flest. En menn ættu að taka það til athugunar.

Ég held að það sé ekkert skrýtið þótt það séu einhverjir vankantar. Við erum að læra þetta og verið að fara í gegnum það í fyrsta sinn. Ég vil hins vegar taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt áherslu á eftirlitshlutverkið og vil minna á það að samkvæmt þessum lögum á fjármálaráðherra að skila reglulega inn skýrslum um framkvæmd stefnunnar.